föstudagur, febrúar 04, 2005

Síðasti síðasti dagurinn

Jæja, nú er komið að því. Langþráður draumur vinnufélaga minna hjá Flugfélagi Íslands á Egilsstöðum er orðinn að veruleika.
Í dag föstudag 4 febrúar á því herrans ári 2005 er komið að síðasta síðasta degi mínum í vinnu hjá Flugfélagi Íslands. Ég er þegar búinn að hætta einu sinni áður, en ég held að ég hætti ekki í þriðja skiptið.

Ekki nóg með það að vera að hætta hjá Flugfélaginu, því ég hætti líka hjá RÚV seinna í dag. Ekki amalegt það að ná að klára tvær vinnur á einum og sama deginum.


En ég held að rampurinn á Egilsstaðaflugvelli verði tómlegur þegar ég verð farinn.

"Segi það og skrifa, Hættur !!!"

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Bjór og bolti á Þriðjudegi

ATH Þessi færsla er skrifuð í miklu heilsuleysi á miðvikudagsmorgni.

Í gær tók ég mig til og skrapp á Kaffi Nielsen í þeim tilgangi að verða vitni af stórleik í ensku knattspyrnuni sem var sýndur á 38" plasma skjá á efri hæð Nielsens. Vissulega gekk það allt gott og vel fyrir sig, enda var leikurinn hin besta skemmtun og úrslit úr öðrum leikjum kvöldsins voru góð. Þetta var sumsé í alla staði skemmtileg kvöldstund sem ég átti þarna með nokkrum góðkunningjum mínum. En það fylgir víst böggull skammrifi, því gærkvöldið þurfti náttúrulega að eiga eftirköst.

Ofsofnun og slappleiki þurfti endilega að fylgja í kjölfar góðrar skemmtunar.


Ekki er víst hvað veldur, en talið er að óhófleg neysla bjórs hafi eitthvað með þetta að gera, en ekki er búið að útiloka þann möguleika að maturinn sem ég pantaði mér um kvöldið hafi verið eitthvað skemmdur...