föstudagur, janúar 20, 2006

Hvar er ritgerðin ?

Ég fékk skýringu á lágri einkunn í ensku frá kennaranum mínum í gær. Svo virðist sem ensku ritgerðin mín um bros Mónu Lísu hafi aldrei komið sér til skila en allavegana þá þóttist ensku kennarinn minn ekki kannast við að hafa fengið ritgerðina upp í hendurnar á sér, jafnvel þó svo að ég hafi skilað ritgerðinni.

En með sjarmerandi brosi og þokkafullri framkomu þá tókst mér að sannfæra kennarann um að taka við ritgerðinni og fara yfir hana og væntanlega gefa mér einkunn sem hefur áhrif á lokaeinkunnina mína í ensku.

Þannig að meðaleinkunnin mín kemur til með að hækka eitthvað lítillega með hækkandi sól, ekki amalegt það.


Leyndardómar Mónu halda áfram að birtast í hinum ótrúlegustu myndum enn þann dag í dag. Dan Brown hefur þegar sett í samband við Sigmar um þetta dularfulla atvik. Búast má við uppkasti af sögunni í Maí.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Kalt !

Það voru engin -4 stig á celsius í morgun þegar ég hjólaði í skólann, það var miklu meira !

Helvítis veðurstofa, mér var kalt í morgun og verð sennilega aftur kalt þegar ég hjóla heim.

Hvernig væri að spá þannig að maður geti nú planað fötin kvöldið áður en maður fer út ?

Jæja, best að hysja upp um sig stuttbuxurnar og hlýrabolinn og hætta þessu væli og fara að koma sér heim.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Þreyttur eða breyttur ?

Alveg síðan ég vaknaði á nýársdag í jakkafötunum mínum einhversstaðar í Noregi þá hef ég verið þreyttur. Nú, rúmlega hálfum mánuði seinna þá er ég ennþá að geispa fram eftir degi og er að kljást við óstjórnanlega þreytu.

Svona til gamans þá hef ég ákveðið að setja saman lista yfir hugsanlegar ástæður fyrir þessari síþreytu minni sem ætti að geta varpað ljósi á þennan slappleika minn.

* Skammdegisþunglyndið hefur náð mér.

* Ég svef allt of illa eða of laust.

* Draumur minn um nornina um daginn heldur fyrir mér vöku á nóttunum.

* Næringarskortur á fyrstu dögum nýs árs vegna ömmuleysis.

* Sjokkið við að nýtt ár sé gengið í garð kom mér í opna skjöldu.

* Kvennmannsleysi er farið að hrjá mig.

* Ég vakna alltaf of snemma.

* Ég fer alltaf of seint að sofa.

Þetta eru allt góðir punktar um síþreytu mína en það er spurning hvort aðalástæðan sé ekki sú síðastnefnda í listanum, ég sjálfur hallast allavegana mest að því.

mánudagur, janúar 16, 2006

Sigmar síþreytti

Ekki get ég nú sagt það að ég hafi nú hvílst vel um helgina, sem leiðir til þess að ég verð þreyttur og úrillur í skólanum.

Ekki bætti það úr skák að ég fór á fótboltaæfingu á sunnudaginn sem skildi eftir sig lúinn líkama og fullan af strengjum.

En það er samt gaman að minnast á það að sólin skein hér norðan heiða í gær sem og í dag sem lyfti brúninni óneitanlega mikið, þetta er allt að koma !