laugardagur, apríl 29, 2006

Fermingarveisla og át

Eftir að hafa úðað í mig sætabrauði og smurðu í fermingarveislu hjá frænda mínum, þá verð ég að segja að mér líði ekki allt of vel.

Ekki það að kökurnar hafi verið slæmar heldur var neyslan fullmikil ef svo mætti segja.

Dísætt brauð með þreföldu súkkulaðikremi, tvísykruðum marens og fjórföldum skammti af rjóma varð á vegi mínum, sem ég varð einfaldlega að éta.

Það er náttúrulega skemmst frá því að segja að ég fór auðvitað fleiri en eina ferð og fleiri en tvær að kökuborðinu.

Guði sé lof að ég fari ekki í fleiri veislur því það er ósköp einfalt að ég myndi éta á mig gat og drepast úr offitu fyrir aldur fram. Það mæti líkja mig við hrafna, því þegar þeir komast í æti þá éta þeir þangað til að þeir koma ekki meira niður.

Sú varð raunin hjá mér í dag.


Feitur og sköllóttur. Það er víst framtíð Sigmars ef átveislan heldur áfram.

föstudagur, apríl 28, 2006

Hva, er komið sumar ?

17 gráður á selsíus í dag, ekki slæmt.

Verst bara hvað það var hvasst...

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Eggjahljóð

Mér til mikillar hryllingar áðan, þá heyrði ég í einum forláta þresti syngja hástöfum upp í einu tréi sem var á vegi mínum. Þá uppgvötaði ég það tímabil eggjahljóðs hjá þessum litlu greyum er gengið í garð.

Þannig að ég mun fastlega búast við þessi litlu kvikindi geri sér ferð í garðinn í Brautarhóli og leyfi mér að njóta þessarar undurfagra söngs sem þeir syngja um hánótt eða alltof snemma morguns.

Nágrannar Brautarhóls mega því ekki kippa sér við ef þeir sjá mjög geðstirðan einstakling á brókinni einni saman, kastandi steinum í átt að öspunum í garðinum með viðeigndi blótsyrðum og formælingum.


Þrestirnir munu væntanleg ekki eiga sjö dagana sæla ef þeir byrsta rödd sína á lóðum Brautarhóls. Mjög svo svefnsár maður mun væntanlega eiga í harðri baráttu um völdin á jarðeigninni á með eggjahljóðum stendur.

mánudagur, apríl 24, 2006

Áttu miða ?

Ég er að hugsa um að reyna að skella mér á úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni en mig vantar miða.

Ef þú, lesandi góður, lumar á tveim miðum sem þú hyggst ekki að nota, þá máttu endilega koma þeim í hendurnar á mér.