föstudagur, mars 10, 2006

Skipulags Sigmar

Það er sko hægt að segja með sanni að ég get skipulagt mig upp á mínótuna !

Þannig er með mál í vexti að ég átti að skila inn ritgerð í Fjölmiðlafræði um rannsóknarblaðamennsku í tímanum í morgun, sem og ég gerði.

En það þykir kannski ekki frásögum færandi nema það að ég vissi af þessari ritgerð frá því í janúar og var svo sem alltaf á leiðinna að klára ritgerðina á skikkanlegum tíma, sem og ég gerði.

Ritgerðin var búin hvíla yfir mér eins og mara síðastliðnu tvær vikur en ég hafði samt aldrei tíma til þess að leggjast í smíðarnar sökum einhverra óskiljanlegra anna.

En ég byrjaði sumsé að vinna í ritgerðinni í gær, einum degi fyrir skiladag. Ég las og las í allan gærdag, alveg fram að kvöldmat og ég var, satt að segja, orðinn ansi lúinn eftir það.

Eftir kvöldmatinn þá var sumsé ákveðið að taka smá "lærdómspásu" og ákveðið að tylla sér fyrir framan imbann og slappa örlítið af. Það vildi nú samt ekki betur til en að hvert gæðaefnið rak upp, hvert eftir öðru og alltaf var erfiðara og erfiðara að hafa sig upp úr mjúkum og þægilegum leðursófanum.

Það var ekki fyrr en að einni hrísmjólk, ópal pakka og nokkrum klukkustundum liðnum að ég drattaðist á lappir og bretti hressilega upp á ermarnar og leit á klukkuna, vongóður um tímann.

Klukkan var nú ekki nema rétt um ellefu.

Það var því unnið hörðum og hröðum höndum það sem eftir lifði kvölds, nætur og morguns.

Um átta leytið í morgun sat ég uppi með sveittan skallann og eitt stykki tíu blaðsíðna, fullunna og spegilslétta, ritgerð.

Þá var bara eftir að stinga sér í vettlingana, smella húfunni á höfuðið og renna upp úlpunni og hjóla af stað á vit ævintýranna og skila ritgerðinni á hárréttum tíma til brosmilds kennara sem tók við meistaraverkinu með bros á vör.

Og hana nú !

fimmtudagur, mars 09, 2006

Fallegur hópur !

Hér sést betri hluti fyrstaársnema í félagsvísinda lagadeild Háskólans á Akureyri.


Það má með sanni segja að það hafi verið gaman á árshátið FSHA, jafnvel þó svo að minnið hafi orðið eitthvað gloppótt þegar leið á kvöldið.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Undur og stórmerki !

Í dag þá fór ég á fætur klukkan átta, eldaði mér hafragraut og fór síðan að læra.

Það þykir kannski ekki frásögum færandi, nema það að ég átti ekki að mæta í skólann fyrr en klukkan tíu.

Það er mjög langt síðan að svona lagað hefur gerst hjá latasta manni Íslands.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Nóg að gera

Þýðing á fimm blaðsíðum af fræðilegri ensku um kenningar Maxs Webers um náðarvald fyrir morgundaginn, verkefni í íslensku um málsnið fyrir fimmtudaginn og ritgerð um rannsóknarblaðamennsku í fjölmiðlafræði fyrir fimmtudag líka.

Samt sem áður þá sit ég hér og væli um hvað það sé mikið að gera og skrifa um það á netið.

Væri ekki nærri lagi að hætta að gefa sér tíma í þessa vitleysu og gera eitthvað af viti, í staðinn fyrir að horfa á tölvuskjáinn og vona að allt reddist von bráðar.

Já, það er nú það...

mánudagur, mars 06, 2006

Skyggni ágætt

Það er greinilegt að það stefnir í þynnkudag númer tvö, þar sem sunnudagurinn var ekki nægur til þess að vinna á þynnkunni sem brast á í kjölfar ofneyslu Brennivíns og Morgans skipstjóra.

Útlitið er samt bjart fyrir morgundaginn enda þarf lifrin varla meira en tvo daga við úrvinnslu áfengisins sem neytt var um helgina.

laugardagur, mars 04, 2006

Ekki alveg nógu góð kjörsókn...

Þar sem aðeins 24 kusu í jakkafatakosningunum, þá neyðist ég að ákveða sjálfur í hvaða jakkafötum ég fer á árhátið.

Nú er bara að vona að hvítu buxurnar verði ekki eins þröngar og þær voru þegar ég var að máta þær.

.................................................................... Svo virðist sem að þau gráu ætli að hafa vinninginn, sérstaklega í ljósi þess að mittið á þeim er mun víðara en hjá þeim hvítu.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Nú er það grátt, eða hvítt!

Nú er víst komið að árshátið Háskólans á Akureyri og þemað er víst "Mafíuósar".

Ég er búinn að ákveða að fara á árshátíðina en málið er bara hvurslags múndering verði fyrir valinu.

Samtals á ég fjögur jakkaföt en einungis tvenn koma til greina. Þar sem ég er mjög óákveðinn maður þá hef ég ákveðið að láta ykkur lesendur velja fyrir mig klæðnaðinn og fara eftir kosningu ykkar.

Svo spurningin er sú, hvort eru það hvítu eða gráu jakkafötin sem verða fyrir valinu ?


Gráu eða hvítu jakkafötin
Gráu
Hvítu
  
Free polls from Pollhost.com


Mig langar að benda á það að ég tek ekki mark á kosningunni nema að minnsta kosti 50 atkvæði berast.

Þið getið smellt hér til að skoða myndir af drengnum í jakkafötunum títtnefndu.


Á umræddu myndum má sjá að fyrirsætubransinn er á næstu grösum hjá Bóndanum.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Út hef ég drukkið allt vit

Það er víst próf á morgun. Ég gleymdi því að ég ætlaði rosalega að læra undir það próf um helgina en allt kom fyrir ekki.

Nú er bara að leggja allar bollur frá sér og rífa upp brækurnar og bækurnar.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Ofurhress !

Eftir vísindaferð í KB-banka og heimsókn upp á níundu hæð í Tröllaborgum, þá var ákveðið að koma við á Kaffi Akureyri og þetta varð niðurstaðan.

Eins og sjá má á þessari mynd þá var ég í mjög svo góðum gír.

Því miður þá var ástandið ekki eins gott í dag.

Ég er ekki ennþá búinn að fatta að Vískí og bjór fara ekki voðalega vel saman... sérstaklega ef ofneysla slíkra drykkja á sér stað.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Til Hamingju Eva (og Ísland)

Í dag er ungfrú (tilvonandi frú) Eva Beekman tuttugu og tveggja ára gömul !

Vil ég nota tækifærið og óska þessari elsku til hamingju með afmælið en hún er einmitt núna stödd í Tælandi að gera einhvern fjandan af sér, eitthvað sem engum sögum fer af... sem er kannski best.

Þeim sem langar að senda Evu hamingjuóskir er bent á heimsreisuheimasíðu Heru, Evu og Rögnu, www.blog.central.is/heimsreisan


Eva er væntanlega glöð yfir þessum stórviðburði og hyggst væntanlega halda upp hann að tælensk/íslenskum sið. Nú er bara að senda hlýja strauma til hennar jafnvel þó svo að það sé um 30 stiga hiti í Tælandi í augnablikinu.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Smá pælingar...

* Ætli það sé mikið brax að búa í Brasilíu ?
* Ætli það sé mikið af litum í Litháen ?
* Ætli það sé mikið að bandi í Bandaríkjunum ?
* Ætli það sé mikið af eistum í Eistlandi ?
* Ætli það séu alltaf páskar á Páskaeyjum ?
* Ætli það séu mikið af hondum í Hondúras ?

Ég var bara svona að spá í þessu, sérstaklega í ljósi þess að það sé ekki mikið af ís á Íslandi. Spurning hvort aðrar þjóðir standi undir nafni?

mánudagur, febrúar 20, 2006

Dans Sigmar !

Þá er það komið á hreint, ég, Sigmar Bóndi Arnarsson er með tvo vinstri fætur.

Eftir eins og hálfs tíma langa dans stund upp í Háskóla þá var komist að þessari stórmerkilegu niðurstöðu.

Engu að síður þá skemmti ég mér konunglega enda hef ég alltaf haft lúmskt gaman af dansi en því miður ekki ræktað áhuga minn nægilega mikið. Aðal vandamálið varðandi dansinn var að gera eitthvað tvennt í einu. Ég er ekki alveg að ná að hugsa og hreyfa leggina rétt um leið.

Ég er bara hissa að ég hafi ekki bara hnigið niður við þessa áreynslu á huga og líkama.

En maður má ekki láta deigan síga, heldur mæta í næsta tíma þrátt fyrir harðvítugleg mótmæli meðdansara og sýna þeim hvað býr í drengnum !

Vínarpolka, vals og ræl !
Áfram Þristur !

Ég var að falla í mínu fyrsta prófi í Háskólanum á Akureyri í lífi mínu. Ég var í tölvuprófi í stærðfræði þar sem einungis 19% í áfanganum náðu. Ég var því miður ekki þar. Mér til mikillar gleði þá tók ég eftir því að ástæðan fyrir því að ég féll var einungis klaufalegs eðlis, því ég hafði gert eina pínu ponsu villu í byrjun sem hafði áhrif á allt prófið.

Ég endaði því með forlátan þrist í einkunn og ætla því að fagna því með neyslu eins slíks núna á eftir !

Svo er maður ekki í vafa um það að Ungmennafélagið mitt verði ánægt með mig, því ekkert er betra en að standa undir nafni.

föstudagur, febrúar 17, 2006



Ég er William Wallace. Samkvæmt niðurstöðum ofurhetjuprófsins sem ég var að taka þá er ég enginn annar en skeleggurinn hann Willian Wallace hinn skoski, sem gerði garðinn frægan í baráttum gegn Englandskonungi. Ekki amalegt það.

William Wallace

88%

Lara Croft

71%

Maximus

71%

El Zorro

71%

Indiana Jones

67%

James Bond, Agent 007

63%

The Terminator

54%

Neo, the "One"

54%

Batman, the Dark Knight

50%

Captain Jack Sparrow

50%

The Amazing Spider-Man

42%

Hvaða ofurhetja ert þú ?
created with QuizFarm.com
Salatbars *** og 1/2

Það má með sanni segja að ég hafi gert mér glaðan dag í hádeginu í dag. Ég skellti mér á salatbarinn í Háskólanum á Akureyri með pompi og prakt. Ofneysla salats átti sér auðvitað stað því ég skóflaði vel á diskinn hjá mér, því ábótin er víst engin á þessum rómaða bar.

Ég verð nú að segja að ég var meira að segja nokkuð ánægður með diskinn hjá mér. Öll hlutföll tegunda vori í réttu magni og brögðuðust mjög vel, fyrir utan litlu tómatana en það var smá geymslubragð af þeim. Á heildina litið þá var þetta mjög góður salatbar og fær hann 3 og 1/2 af fimm mögulegum.


Keimlíkur var diskur Sigmars og þessum en bragðaðist sennilega betur.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Hlekkir

Var að bæta við nokkrum Hlekkjum á síðuna !


Hlekkur frá Túnsbergi


Hlekkur frá Hofi

Og svo náttúrulega...


Hlekkur frá Stóra Hvammi

Ég var samt einnig að bæta við og uppfæra hlekkina hér til hægri, gömul blogg eru farin út og ný komin inn !

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Verðbréf



Það er nóg um að vera í verðbréfabraskinu hjá mér þessa dagana. Gengi FL group er að rísa upp úr öllu valdi þannig að það má alveg eins að ég fari að kaupa KB banka með þessu áframhaldi.

Sjáið bara:

Hlutabréf
FL GROUP hf. 10.500,00 kr. 27,7 1,000000 ISK 290.850,00 kr.
Samtals eignir: 290.850,00 kr
.

Ég á hlut upp á 10.500 krónur en get selt það fyrir 290.850 krónur í dag. Ekki amalegt það.

Magnað hvernig þessir hlutir virka.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Helgin sem leið...

Ég hugsa að best sé að stikkorða helgina sem leið, ég er ekki í milu stuði til þess að skrifa mikið.

Föstudagur

* Spennti músaboga
- þruskið var farið að fara í pirrurnar á mér
* Horfði á Star Wars 3 með Binna bróðir
- var alveg hrikalega spenntur allan tímann

Laugardagur

* Kom að vettvangi morðs
- Músin hafði komist í suðusúkkulaðið sem ég egndi fyrir henni. (Set inn myndir seinna af greyinu)
* Las heilmikið í ritum Karli Marxs
- Án þess þó að skilja það
* Skrapp á þorrablót með mömmu, ömmu og Guðmundi
- Þar byrjaði kjaftæðið
* Skrapp á Vélsmiðjuna með mömmu, ömmu og Guðmundi (Binni kom við seinna)
- Þar hófst ölvunin, hjá mömmu, ömmu og Guðmundi (já ömmu líka )
* Var bílstjóri kvöldsins
- Skemmti mér konunglega yfir ölvun hópsins (Binni sofnaði m.a. á leiðinni heim)
* Fór alltof seint að sofa
- Lið komst ekki heim fyrr en um 5 leytið

Sunnudagur

* Fótbolti
- var samt hálf þunnur frá því deginum áður, sennilega af ofneyslu kaffis.
* Kvöldmatur hjá mömmu
- Tveim sjálfboðaliðum var boðið í plokkfisk
* vídeogláp
- Horfði á "Liliya 4-ever". Fór næstum því að grenja í lok myndarinnar.

Svona var nú þessi helgi hjá mér í hnotskurn. Ég var með stafræna myndavél á mér einhvern hluta helgarinnar, þannig að það má búast við einhverjum myndum ef ég verð ekki of latur.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Týndi hlekkurinn !

Ég var að komast að því að Sigurður Sindri Stefánsson hefði verið hlekklaus hér á síðunni. Það er nú búið að kippa því í liðinn, þannig að áhugasamir geta lesið allt um ævintýri Sigurðs á Internetinu !

Sigurður Sindri Sambýlingur er kominn með hlekk á sig!
Sigurður verður nú að teljast með myndarlegri mönnum sem hafa komist inn á síðuna hans Sigmars
Framburður

Ég var að horfa á sjónvarpið í gær, sem er nú ekki frásögum færandi nema hvað að ég tók eftir einni auglýsingu fyrir Bónus Vídeó sem kom mér í vont skap. Þulurinn fór ad tala um að Martin Lawrence væri að leika skemmtilegan "hrokkagikk" í einhverri mynd sem var verið að auglýsa.

Ekki veit ég hvað hrokkagikkur er, en það var það sem maðurinn sagði. Er hann að tala um að Martin Lawrence myndi leika hrokkinn hærðan oflátung eða hvað ?

Eitt er víst að ég veit hvað hrokagikkur og það kemst sennilega nærri lagi um lýsingu á persónu Martins Lawrences í umræddri kvikmynd. Ég trúi því frekar að Martin sé að leika hrokafullan mann heldur en hrokkin hærðan.