föstudagur, febrúar 16, 2007

aumingjar, letingjar eða nautnaseggir ?

Ég var að lesa þessa frétt inn á mbl.is nú rétt í þessu og fréttin kom mér alls ekki á óvart. 73% Reykvíkinga keyra einir í skóla eða vinnu á hverjum degi. Þetta er að mínu mati ekki ótrúleg tala, enda hefur maður tekið eftir því þegar maður er á ferð fyrir sunnan að það er að meðaltali 1,25% manneskja í hverjum bíl á götunni. Svo er fólk að kvarta undan umferðarþunga, tja, það er ekkert skrýtið ef allir sitja í sínum bíl og hugsa bara um sjálfan sig.

Mér hefur alltaf fundist það skrýtið að það sé ekki hægt að nota almenningssamgöngur meira hér á þessu landi. Ástæðan er ef til vill of mikið góðæri síðustu ár, því allir virðast eiga bíla. Ég hef tekið eftir því þegar ég hef verið að heimsækja félaga á Stúdentagörðunum í Reykjavík að öll stæði þar eru full, alltaf. Það er ekki eðlilegt heldur.

Ef til vill þá má kannski kenna almenningssamgöngunum sjálfum um. Flókið kerfi og fátíðar ferðir á milli staða eiga kannski sinn þátt í að fólk kýs frekar bílinn fram yfir strætó, sérstaklega í öllu stressinu sem því fylgir að komast á milli staða. Fólk fer meira að segja alveg yfir um ef lögreglan þarf að loka vegi í einhvern tíma út af umferðarslysi.

Hvernig væri nú ef fólk færi nú að spara og drægi úr útgjöldum með því að nota almenningssamgöngur eða einfaldlega sína eigin orku til þess að koma sér á milli staða, hagvinningurinn er svo miklu meiri en bara nokkrar krónur, þetta er eitthvað sem samfélagið græðið allt á, þannig að allir hagnast.


Kannski er þetta framtíðarlausnin, Stækka bara göturnar og hringtorgin svo fleiri komist fyrir. Hverju máli skiptir með mengun, kostnað og aðra smámuni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli