föstudagur, janúar 19, 2007

Frítt í strætó

Mikið getur maður nú verið glaður á búa hér norðan heiða. Ekki nóg með það að Akureyri skuli vera fallegasti bær Íslands, þá er einnig frítt í strætó í bænum !

Það er skemmst frá því að segja að ég og Eva Lækur erum bæði búin að notfæra okkur það þegar kemur að smá bæjarsnatti.

Ekki er það heldur amalegt nú er hægt að samtvinna helstu kosti hjóls og bifreiðar !

Nú getur maður brunað niður í bæ á Bronco-inum og tekið svo strætó heim ef maður er eitthvað latur, án þess að hafa það á samviskunni að greiða fyrir farið.

Ekki amalegt það !


Nú er frítt í strætó á Akureyri og það er svo sannarlega hamingjufréttir fyrir norðanbúa !

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Kveðjur

Ég var að velta fyrir mér einu í morgun...

Ég gekk framhjá einni stúlku í skólanum og kastaði góðfúslegri kveðju til hennar með tilheyrandi brosi og kinki. Það er svo sem ekki frásögum færandi, nema hvað að um það bil 20 - 30 mínótum seinna þá geng ég framhjá henni aftur. Samt sem áður í það skipti, þá átti sér enginn kveðja sér stað, ekkert bros eða kink, bara ekki neitt.

Það má því segja að sú kveðja sem átti sér stað í fyrra skiptið hafi verið enn í gildi, jafnvel þó svo að 20 - 30 mínótur hafi liðið á milli.

Ég fór því að velta fyrir hversu lengi hver kveðja gildir, það er hversu langt það þarf að líða á milli kveðjna svo hægt sé að heilsast aftur. Ég listaði því nokkur atriði sem vert væri að kanna varðandi kveðjusiði fólks.

* Ef kveðja á sér stað, þarf þá að líða einhver X ákveðinn tími svo hægt sé að kasta henni aftur ?

* Eru aðrar breytur með inn í myndinni ? Til dæmis eins og hversu góð kynni eru af viðkomandi sem fær kveðjuna ?

* Eru umhverfisþættir einnig með inn í myndinni ? Eins og hvar viðkomandi kveðja átti sér fyrst stað og hvar næsta kveðja mun eiga sér stað ?

* Eru kveðjuhættir mismunandi milli samfélaga og landa ?

* Er munur á milli kynja varðandi kveðjur ?

Þetta eru allt atriði sem ber að hafa í huga og þyrfti ef til vill að kanna til hlýtar sem fyrst. Guði sé lof að maður sé í háskóla svo maður geti nú ef til vill eytt mikilsverðum tíma sínum í svona vitleysu.


Borat Sagdiev frá Kazakztan heilsar ef til vill öðruvísi heldur en fólk úr Þistilfirði.