sunnudagur, desember 14, 2003

Það er sorgardagur hjá Tæknitröllinu í dag... ég var að komst að því að linkurinn á landmandinn.blogspot.com hafði verið tekin af finnur.tk

Það er spurning hvort maður fari að gera eitthvað í því ?

sunnudagur, október 05, 2003

Þunnur !

Í dag er ég þunnur.

úff.

laugardagur, október 04, 2003

Andskotinn !

Liverpool tapaði á mótið Arsenal. Andskotinn !

Afhverju lætur maður þetta fara svona með sig ? ég er ónýtur maður núna og verð það sennilega næstu daga ? Er lífið virkilega fótbolti ?

Andskotinn !

fimmtudagur, október 02, 2003

Allir velkomnir...

Ég hef ekkert að segja en ég er tengdur og vildi bara heilsa upp á aðdáðendur mína sem bíða tímunum saman eftir að ný færsla komi inn, svo gjörið svo vel.

Annars er bara allt gott að frétta úr hinum harða stafræna heimi netsins, Gunnar er tengdur að vanda og ekkert óvænt ber úr garði í dag.

...í kaffi í tröðinni.
Æææjææ...

Guð minn góður ! Ég er með svo mikla strengi að ég er að deyja... Ég asnaðist á Bandýæfingu á Þriðjudaginn (nota bene, það er Fimmtudagur í dag) og ég er gjörsamlega að deyja. Þegar ég sest niður þá koma stunur úr mér eins og úr sextugum manni... Ekki gott. Þetta er svoldið skrýtið, því ég var fínn í gær, daginn eftir æfingarnar. Hér með sannast það að ég er virkilega "slow" persóna, átta mig einu sinni ekki á því að ég sé með strengi, fyrr en eftir tvo daga... Guð minn góður.

Já það er oft slegið á létta strengi... ha ha ha

miðvikudagur, október 01, 2003

Snillingur !

Ég er búinn að komast að því að ég sé snillingur ! Á mínar eigin spýtur hef ég leyst þann vanda sem hrjáði þessa stórfenglegu síðu að íslensku stafirnir voru eitthvað skrýtnir... það var að vísu ekki flókið en samt ! Þetta er bara byrjunin, seinna meir munu uppfærslur blasa við og síðan mun komast í flokk fottustu síðna í hinum stafræna heimi internetsins !

Salút !

(ég hef mikið dálæti af upphrópunarmerkjum þessa dagana :) ! )

laugardagur, september 27, 2003

Ó já...

Alltaf í stuði, þarf að vísu að reyna að laga stafina, svo virðist sem að íslensku stafirnir virka ekki, ég veit ekki afhverju en ég mun reyna að komast að rót vandans og laga það ! Annars er allt fínt að frétta... er að fara niðrá Djúpavog á Stefánskvöld að taka eitthvað upp þar fyrir Rúv, þannig að það lýtur út fyrir að ég fari ekki á ball í kvöld... ójæja, það verður bara að hafa það, en að vísu þá get ég horft á Charlton - Liverpool á morgun í fullkomnu ástandi og fylgst glögglega með framvindu mála þar.

Bið að heilsa í bili...

miðvikudagur, september 24, 2003

Úff...

Jæja, ætli maður þurfi ekki að fara að endurnýja bloggið sitt... nú er maður kominn með nettengingu heim og svoleiðis. í þetta skiptið verður keyrt áfram á fullum hraða og ekkert gefið eftir ! Ég mun gera þessa bloggsíðu að þeirri vinsælustu á Íslandi, ef ekki heiminum ! og hana nú.

En þetta er bara byrjunin á nýju lífi, líf sem mun slá gjörsamlega í gegn, heimurinn mun nötra undan mínum hugsunum og að endanum verða á mínu valdi !

Nóg um það.

Mæli með nýja Iron Maiden disknum, The dance of death og nýju Chemical Brothers smáskífunni.

Sigmar Bóndi rís aftur !

fimmtudagur, júní 19, 2003

alltaf nóg...

Fór norður í dag, keyrði austur, var að vinna, tók pásu kl fimm og fór að vinna, eftir það fór ég að vinna og svo er ég að fara að spila æfingaleik á eftir.

Þetta er búinn að ver fínn dagur. Til að fá nánari útskýringar á þessu þá var ég að vinna hjá Flugfélagi íslands í morgun og í dag, en var sendur norður með flugi til þess að ná í bílaleigubíl. Því miður þurfti það að vera Suzuki Jimny en það var svo sem ekki það slæmt. Eftir það, um fimm leytið, Hætti ég að vinna hjá flugfélaginu og fór að vinna hjá Rúv, Og þegar ég var búinn þar þá fór ég að vinna aftur hjá Flugfélaginu. Þetta er nefninlega mjög skemmtilegt. En það er föstudagur á morgun, það verður góður dagur. Ekkert Flugfélagsbras, heldur bara Rúv vesen. Það gerist ekki betra en það. Og hana Nú !

...að gera svo sem.

þriðjudagur, júní 17, 2003

Hæ hó...

Gleðilegan 17 júni allir saman, á þessum degi fyrir 59 árum síðan öðluðumst við íslendingar sjálfstæði undan krepptri járnhönd Danaveldis... Fuck danaveldi ! Þessir baunar eiga allt illt skilið, þeir settu á okkur píningsdóminn og seldu okkur ónýtt mjöl, helvítis kvikindin. En nú í dag getur maður verið glaður, Við íslendingar höfum það gott, við höfum fleiri sólskinsstundir heldur en Mallorca, Notum netið meira en danir og erum bara mun tæknivæddari yfir höfuð en greyið baunarnir. Við eigum hrós skilið, við erum búin að gera það gott í gegnum þessi 59 ár án þessara dana og við eigum bara allt gott skilið fyrir það. Í dag er ég stoltur yfir því að vera íslendingur, enda vaknaði ég með þjóðsönginn okkar glymrandi í hausnum, það var bara einfalt tákn yfir það að ég ætti að vera stoltur í dag, stoltur og glaður yfir að fá að búa á þessu frábæra landi með okkar stórkostlega vatni, yndislega lofti, fallega kvenfólki og gómsæta lambakéti. Tár renna niður vanga minn þegar ég hugsa um alla þessa yndislegu hluti, hluti sem gera landið okkar að því sem það er ! ó guðs vor land, í land vor guðs... En að allt öðru. Ég er í vinnuni, þreyttur, af því að ég fór á ball og takið eftir einu, ég er EKKI þunnur! Ég endurtek, EKKI þunnur. Undur og stórmerki gerast enn í okkar góða landi. Yebbs, ég drakk ekki í gær og mér líður vel. Svo vel að ég er að fara bráðum í kökuhlaðborð á Hótel héraði. Í dag er ég glaður maður.

...og jibbí jei

mánudagur, júní 16, 2003

Byrjaður...

Æj æj, það hefur nú eitthvað hægst um þetta blogg mitt núna upp á síðkastið, þrátt fyrir stór orð í byrjun. En það þýðir víst ekkert að væla um það, heldur halda áfram ótrauður í gegnum þessa miklu erfiðleika sem eru að hrjá mig ! Annars er allt gott að frétta, maður er nýkominn frá útlöndum, nánar tiltekið Spáni, eða Costa Del Sol eða Torremolinos. Það var svo sem alveg ágætt, kom að vísu mjög slappur heim, ekki veit ég afhverju... Það var margt sniðugt brallað þarna úti enda ekkert annað gera og kom þar bjórinn oft við sögu, þannig að lirfin mín litla fékk helvíti slæma útreið... úff ! Ekki gott. En núna er maður byrjaður að vinna og allt er í gúddí (góðu) og önnur utanlandsferð er í sjónmáli, ferð til Danaveldis, nánar tiltekið til Hróarskeldu. Það er alltaf nóg að gera, fullt að gera og allt að gerast... eða eitthvað svoleiðis, held ég. Nóg um það allt saman og hitt líka, ég er farinn að vinna, Flugfélag íslands Rúles !

mæli með þessari síðu :)

...aftur.

þriðjudagur, júní 03, 2003

ýkt...

Bara ad láta vita ad thad er ýkt gaman í útlondum ! Costa Del Sol Fuckings Rúles !

...gaman.

miðvikudagur, maí 07, 2003

Út og...

Bíó bíó bíó... ég er að fara í bíó, vitið hvar ??? í spillingarbælinu sjálfu, Reykjavík. Jebbs, minns er að fara suður, einungis til þess að fara í bíó og rúnta svo heim aftur. Afhverju spyrja eflaust einhverjir og svarið er einfalt; Af því Bara ! mig langar í bíó og hef ekkert að gera á morgun hvort sem er. Einnig er hægt að kalla þessa för "njósn leiðangur" því ég ætla að kanna ástandið á Tunguvegi 18, kana hvernig leikmenn Þristarins eru að standa sig og athuga líka hvernig ásikomulagið sé á köppunum. Nóg um það, ég er að fara suður og það stoppar mig enginn !

...suður.

mánudagur, maí 05, 2003

Daginn í dag...

Góðan daginn, og lengi lifi Þristurinn ! Í dag er ég hress, enda er komin ný vika á stað. Lífið brosir við mér í dag sem alla daga, ég er laus við helvítis vanilunna og er búinn að byggja mér 18 holu golfvöll í sýndarveruleikanum heima í stofu. Ég er ferskur eftir mjööög afslappandi helgi, helgi sem var gjörsamlega tilgangslaus, nema fyrir utan að byggja 18 holu golfvöll í sýndarveruleikanum heima í stofu. Því miður get ég ekki sagt að ég sé endurnærður, því ég svaf lítið í nótt. Helvítis 18 holu golfvöllurinn sem varð til í sýndarveruleikanum heima í stofu tókst að snúa sólarhringnum nett við hjá mér, þannig að á daginn var ég svefnpurka en á kvöldin og á næturnar breyttist ég í voldugan 18 holu golfvallar greifa sem réð ríkjum í sýndarveruleikanum heima í stofu ! Veröldin var mín, ég var komin með stjórnina í þessum sýndarveruleika sem einungis birtist mér og mér einum heima í stofu, þar var ég einræðisherra í minni veröld og stjórnaði lífi vesælra golfara sem dirfðust að koma og spila á 18 holu golfvellinum mínum, ég var Guð í þeirra augum !

Sem sagt þá eyddi ég helginni í að spila tölvuleik sem kallast SimGolf. Þetta er svo sem ágætis leikur, nema hvað að maður á svoltið auðvelt með að festast í honum, en það sýnir bara hversu góður leikurinn er. Við þökkum SimGolf fyrir prýðishelgi og vonum að hróður leiksins haldi áfram að berst um heiminn.

...gerði drottinn guð.

föstudagur, maí 02, 2003

Ég er engin helvítis Vanilla !

Fyrir þá sem hafa tekið eftir þá hefur verið í þónokkurn tíma mynd af vanillu á bloggsíðunni minni síðustu daga með titlinum "ég er vanilla" Þetta var eitthvað persónuleikapróf sem ég tók á netinu sem úrskurðaði mig Vanillu. Mér hefur snúist hugur og lýst því yfir að ég sé enginn helvítis Vanilla. Þetta var heimskulegt próf og sennilegra ennþá heimskulegra af mér að setja niðurstöðunnar á netið, það var gert í einhverju hugsunarleysi, ég féll í einhverskonar ástand sem fékk mig til að finnast að þetta væri eitthvað flott. En það er það ekki, enda hefur þetta plagað mig lengi vel og tók ég því þá þessa afdrifaríku ákvörðun að reyna bjarga andliti með því að fjarlægja þennan sora sem var viðloðandi síðuna. Ég lofa lesendum að ég muni vera mun betur vakandi fyrir rugli sem þessu í framtíðinni og einungis láta út gæða efni, beint frá sjálfum mér. Takk fyrir

Vanilla Fucking Sucks !

mánudagur, apríl 28, 2003

Búinn að...

Góðan daginn gott fólk, Sigmar heiti ég Bóndi, Útvarps og Sjónvarpsstjarna. Ó já, nú er maður farinn að tröllríða alla helstu miðla landssins, bæði á Ríksútvarpina sem og á Stöð 2, það er alveg sama hvað það heitir, því ég er þar. Fyrir þá sem ekki vita (og eru þarafleiðandi ekki "in" í dag) þá var ég í þætti Jóni Ársæls, sjálfstætt fólk á sunnudaginn var (þátturinn verður ábyggilega endursýndur einhverntímann seinna, fyrir þá sem misstu af honum). Það getur varla talið frásögum færandi að maður sé nú í sjónvarpinu, ég meina... ég er með annan fótinn inní þessu öllu saman, en það getur verið gott að láta vita af því, fyrir þá sem eru að fylgjast með manni, þó sérstaklega aðdáðendahópnum mínum, sem ég veit fyrir víst að taka öllum slíkum skrifum fagnandi. Ég er hræddur um að ég verði að fara að neita Austur héraði um að koma fram á opinberum skemmtunum og uppákomun á þeirra vegum, ég meina ég get ekki farið núna að taka skref niðrávið, ég held það nú ekki. Ég er þónokkuð viss um að Akureyrarbær hafi samband á næstunni... eru ekki einhverjar uppákomur þar á bæ á næsta leyti ? það hlýtur nú bara að vera.

...slá í gegn !

sunnudagur, apríl 27, 2003

Vesen...

Svo virðist sem að önnur hver dagbókarfærsla sé skrifuð í þynnku, sem þýðir bara væntanlega að ég sé alltaf fullur. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað gott, en það hlýtur nú að vera afrek fyrir sig. Allavega þá er þetta ekki búinn að vera fínn þynnkudagur, það er búið að vera vesen. Ég þoli ekki vesen á þynnkudögum, þynnkuna skal halda heilaga, eins og stendur í bók Jakobs. Alltaf vesen og þetta var einu sinni ekkert spes fyllerí, að vísu var komið víða við en það er bara ekki nóg. Þannig að fylleríið endaði eins og venjulega, drakk mikið, varð fullur og fór heim. Ekkert spes, bara vesen daginn eftir. Takk fyrir mig og ég vona að ég verði ekki þunnur á morgun líka.

Þetta blogg var í boði Flugfélags Íslands.

...alltaf vesen.

laugardagur, apríl 26, 2003

Pítsu...

Úff... já úfff ! Strengir í bak og fyrir. Ég tók mig til og notaði föstudagskvöldið í knattleik, alveg í tvo og hálfan tíma, við erfiðan andstæðing. Þetta var hatrammleg barátta tveggja stórliða á austurlandi, Þristarins Fc og Hústjórnarskólans. Auðvitað var ekkert nema gæða knattspyrna spiluð og glæsitilþrif litu dagsins ljós í þessum "derby" leik á Hallormsstað. Úrslitin eru ekki alveg ljós en Þristurinn skoraði fleiri mörk en "úrslitamarkið" svokallaða var skorað af húsóstelpunum, sem voru í reynd strákar. En þetta var ágætis forsmekkur á því sem koma skal í sumar.

En nóg um það. Var að snæða pítsu með Dabba og Gazza niðrá flugvelli, áleggstegundirnar voru fjórar, skinka, pepperóní, djúpsteikt beikon og bananar. Semsagt dýrindispítsa á góðum degi, það gerst vart betra en það. Lífið er yndislegt !

...partý.

föstudagur, apríl 25, 2003

í dag er...

Þá er maður loksins búinn að ranka við sér. Ég hef verið í hálfgerðu dái síðustu tvo daga. Sumardagurinn fyrsti var þó með eindæmum ágætum enda var um góðan þynnkudag að ræða. En að vísu fór að halla undir fæti þegar þynnkan tók að hellast yfir mann. Svona um fjögurleytið, þegar ég var búinn að spila þrjá körfuboltaleiki fyrir framsóknarflokkinn, fór allt að fara út úr böndunum. Ég og Hafliði Bjarki keyptum hamborgarafjölskyldutilboð í söluskálanum og tókum þá afdrifaríku ákvörðun að éta tvo borgara á mann, plús franskar og láta okkur líða vel, þunnum og söddum. En auðvitað virkaði það ekki sem skyldi, heldur fór okkur að líða illa í magunum. Þannig að þessi slæma ákvörðun átti eftir að fylgja okkur allan daginn, því auðvitað var hamborgarinn að trufla okkur, eða allavega mig allan daginn. En helíum frá sjálfstæðisflokknum lífgaði ágætlega upp á daginn, sem og þrjár góðar ræmur og góður félagsskapur Inga Vals og Skúla Skatts.

..gott veður.
Gleðilegt...

Hvað er um að vera ? Það eru liðnir tveir dagar síðan síðast. Það hefur aldrei líðið svo langur tími á milli blogga. Eins og endranær hefur nóg verið um að vera, en nóg um það síðar.

...Sumar !

þriðjudagur, apríl 22, 2003

Allt að...

Jæja nú er búinn á því. Ég er búinn að vera að síðan klukkan 07:00 í morgun og ég er orðinn pínu þreyttur. Það er ekki nóg með það heldur hef ég verið á tveim vígstöðum í dag. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá byrjaði ég í útvarpinu í morgun kl 07:30. Þar á eftir fór ég á flugvöllinn en hoppaði í matartímanum til að taka upp Auðlindina, fréttaþátt um sjávarútvegsmál. Þá eru bara komin tvö útköll á einum degi, það gera sex tíma. En það er ekki nóg, heldur var ég kallaður út í þriðja skiptið og látinn græja tólin fyrir viðtal við Steingrím J Sigfússon sem sat fyrir svörum hlustenda rásar 2. Þrjú útköll á einum degi, það eru bara níu tímar og svo bætast ofan á það ellefu tímar sem ég vann á flugvellinum. Það gera bara tuttugu tímar á einum sólarhring, það telst nú bara ágætisnýting, það held ég nú.

Ekki nóg um það að mikið var að gera í vinnuni í dag, heldur var Steingrímur J Sigfússon undir smásjánni hjá Jóni Ársæli, umsjónarmanns sjónvarpsþáttarins Sjálfstætt fólk. Þannig að ég var í myndvélinni þegar Steingrímur sjálfur sat undir svörum hjá hlustendum rásar tvö, ekki nóg með það heldur var ég sérstaklega beðinn um að koma inn í stúdíó og láta mynda mig ! Ætli Jón og tökumaðurinn hafi hlustað á Samfés þáttinn minn ?

...gerast.
Það er eitthvað að...

Klukkan er 07:30 og ég er kominn í vinnuna. Ég er bara einn, en mér var sagt að mæta klukkan 07:30. Bara til að hafa það á skrá þá nennti ég varla að mæta, en gerði það samt. Guð forði mér ef ég er að mæta hingað eldsnemma fyrir ekki neitt, guð forði öðrum mönnum.

...það er eitthvað að.

mánudagur, apríl 21, 2003

Það líður...

Nú eru bara páskarnir að verða búnir, ég get ekki sagt að það sé mikill söknuður í því. Gærdagurinn var til dæmis mjög slappur hjá mér. Ég var varla vakanaður þegar mér var farið að leiðast. Hvernig getur maður þolað svoleiðis daga. Til að sporna við þessum leiðindum þá gerði ég mér ferð niður á Seyðisfjörð og mældi mér mót við Stefán Óðalsbónda. Það var bara mjög fínt. En þegar ég kom aftur heim um kvöldið þá fór mér strax að leiðast aftur, varla kominn inn í hús þegar maður var farinn að dæsa. Ég gerði mér þó dagamun og eldaði mér dýrindis kvöldmat sem samamstóð af lambakótilettum og karftöflum með mexíkóosti. Svona getur maður verið grand á því. Það var þá ekkert annað að gera en að horfa á sjónvarpið, fyrst að allir tölvuleikirnir míni séu orðnir af gamlir fyrir tölvuna mína. Það lá við að maður táraðist yfir Titanic. Svona getur maður verið lítil sál.

En þar sem að ég sé á netinu í vinnuni þá ætla ég að láta þetta blogg vera í boði Flugfélags Íslands. Njóttu dagsins og taktu flugið. Flugfélag Íslands.

...og líður.

laugardagur, apríl 19, 2003

Enn...

Jæja, einn dagur í frí frá Blogginu, það þýðir víst ekkert annað. Það hefur margt á dagana drifið skal ég segja ykkur. Mér hefur tekist að verða fullur, eldað kjúkling, borðað pítsu, spilað fótbolta og farið í náttúruferð. Það er svei mér hvað er mikið um að vera hjá manni þessa dagana. En víkjum okkur að allt öðru. Ég vissi að að biðin myndi borga sig, enda er allt að gerst hjá mér núna. Fólk hefur bara komið og hrósað mér fyrir útvarpsþáttinn sem ég var með á dögunum. Ég er virkilega að spá í að stofna heimasíðu um þáttinn, svo að aðgengið fyrir aðdáðendahóp minn verði auðveldari.

Ætti maður að fara á fyllerí í kvöld ? ég nú einu sinni þunnur... Spái í því seinna, en allt þetta og meira til eftir mat hjá Erlendi Steinþórssyni og fjölskyldu.

...og aftur

fimmtudagur, apríl 17, 2003

Skír...

Mikið eru páskarnir leiðinlegir. Þetta eru tilgangslausir frídagar, nema ef þú ert að fara að fermast, eða ert boðinn í einhverja fermingaveislu. Ég er löngu búinn að fermast og er ekki boðin í neina veislu, þannig að páskarnir eru gjörsamlega tilgangslausir fyrir mann eins og mig. Páskar sucks ! Burtséð frá því að frelsari vor reis upp frá dauðum og allt svoleiðis. Hann gleymdi bara að gera eitthvað partý úr þessu öllu saman, gera páskana skemmtilega. Páskaeggið eitt og sér dekkar það ekki. Nóg um það, mér leiðist og það er ekkert við því að gera, allir eru farnir heim eða eru að gera eitthvað annað en að stytta mér stundir. Mikið getur heimurinn verið grimmir.

...dagur

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Ég er sár...

Ég bara skil þetta ekki, það er enginn búinn að hafa samband við mig, enginn fyrirspurn um eiginhandaráritun né að vera með uppistand á uppákomu sem Austur Hérað heldur. Kannski að Seyðisfjarðakaupstaður hafi áhuga ?

...og felli tár
Útvarp samfés...

Ég held nú bara að ég sé orðinn frægur. Leið mín upp að stjörnuhimninum er greið, fræga og fína fólkið bíður mín, meira að segja með ákafa. Ég er bara kominn á sama plan og Óli Palli, allir vita hver ég er osfv. Að vísu er aðal aðdáðendahópurinn allur á félagsmiðstöðva aldri, en það er nú samt eitthvað. Svona er að vera kominn með ítök í fjölmiðlaheiminn, áður en maður veit af þá er maður farinn að árita boli í kleinunni og koma fram á almennum uppákomun sem Austur Hérað stendur fyrir. Þetta er ekki auðvelt líf en maður þraukar í gegnum það, fyrst að maður sé orðinn fyrirmynd í samfélaginu. Þannig að gefnu tilefni þá vil ég benda fólki á að senda tölvupóst á landmandinn@hotmail.com ef það vill fá eiginhandaráritun. Eftir að formleg beiðni berst þá skal ég sjá til hvað ég get gert. Auðvitað reyni ég að halda sambandi við alla mína aðdáðendur, þó það sé erfitt. Bið að heilsa og munið Ekki reykja, því það er ógeðslegt !

...á Rás 2

þriðjudagur, apríl 15, 2003

mjúkur...

Var enda við að raka mig og mér líður frábærlega. Ég setti upp bindið í tilefni dagsins og er að plana að fara í myndatöku fyrir vegabéfið mitt, enda er sól úti. Morgunbænirnar bíða mín kl 16:30 og ég er til ! Munið útvarp samfés í kvöld kl 20:00 - Sigmar bóndi verður með stórgóðan þátt.

...sem barnsrass
Endurnærður...

Mikið lifandi getur maður orðiði þreyttur eftir helgarnar, ég var alveg búinn á því í gær mánudag 14 apríl 2003. Svona er það þegar maður þarf á fyllerí og vinna um helgar, þetta er náttúrulega ekki hvítum manni bjóðandi. En í gær eyddi ég deginum líka í að vinna, laufskáli kl 09:30, auðlind kl 12:00-13:00 og svo flugfélagið frá 13:15 - 15:15. Ekki nóg með það heldur þurfti ég að klára að gera eitt stykki samfés þátt, og ég gerði það. Mikið lifandi varð ég feginn Þegar það var búið. Þannig að ég hvet alla landsmenn til að hlusta á Sigmar Bónda í útvarp samfés í kvöld kl 20:00. Bið að heilsa í bili og partý.

Hvað á maður eiginlega að gera um páskana ?

...og hrærður

sunnudagur, apríl 13, 2003

Búinn...

Nú er dagur að kveldi kominn og vinnan búin. Mikið lifandi er ég feginn, þetta er að vísu ekki búinn að vera erfiður dagur, en langur og strangur var hann. Eftir rúma fjögura tím svefn var haldið í vinnu, við mikinn fögnuð. Ég hefði frekar kosið að flatmaga heima í sófanum og vorkenna sjálfum mér. En þar sem Bóndinn er mikill dugnaðarforkur, var drifið sig upp um ellefuleytið og haldið í Faxatröð 10b og nælt sér í far með Garðari Val og skundað niðrá flugvöll.

Gærdagurinn var samt magnaður, enda var um kumpánakvöld að ræða, helgistund nokkura góðra félaga. Það var eldaður "gourmet" matur og "gourmet" vín drukkið, það má nú ekki minna vera fyrir svona prinsa hóp. Eftir strembna máltið og stífa drykkju var haldið niðrá Orm og slett úr klaufunum. Margur góður maðurinn var á staðnum, sennilega vegna þess að það hefur frést út að kumpánahópurinn knái hafi ætlað að leggja leið sína þangað... það er að minnsta kosti mín kenning. Nóg um og meira á morgunn, ég er farinn heim í þynnku !

...í dag

laugardagur, apríl 12, 2003

kumpána kvöld...

í dag eða í kvöld er kumpánakvöld. Í tilefni þess ætla ég að vera mjög sniðugur og setja inn brandara sem ég heyrði í gær. Það var hann Stefán Óðalsbóndi sem var svo góður að kæta mig með honum, þannig að ég ætla að kæta alþjóð og tileinka Stefáni heiðurinn.

Einu sini var maður sem gekk inn í gæludýrabúð.
Félaginn gekk upp að afgreiðsluborðinu og sagði "heyrðu... ég ætla að fá eitt klósett hjá þér".
Þá sagði afgreiðslumaðurinn "því miður þá seljum við bara klær í stykkjatali"
"Nú" sagði maðurinn "en hvernig klær eigið þið þá ?"
Þá sagði afgreiðslumaðurinn "hérna... við eigum bara klær af salerni..."

Takk fyrir það og vonandi er brandarinn nógu vel uppsettur, þannig að sem flestir geti notið hans. Ostaveisla Dauðans !

í kvöld...

fimmtudagur, apríl 10, 2003

Ich habe keina zeit...

Ég verð bara að blogga, það er svo langt síðan að ég gerði það. Var að vinna, er búinn, hef varla tíma til að blogga, geri það samt, fór á framboðsfund, Gunnar er að Downloada og ég var með leikna auglýsingu í svæðisútvarpinu í gær. Þannig að það er greinilegt að ég hef nóg fyrir stafni. Ég lofa að gera betur næst

...afsakið hvernig ég læt.

(rímar)

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Þriðjudags fjör...

Vaknaði í "morgunn" alveg endurnærður eftir helgina. Var hálfslappur ennþá á mánudeginum eftir erfiða törn síðustu þrjá daga (fim. fös. lau.). Þannig að mér leið eins og ég gæti tekist á við vandamál heimsins án nokkurra vandræða. En síðan þegar líður á daginn þá verð ég bara þreyttur og nenni ekki svona veseni eins og að takast á við heiminn. Það er bara best að bíða fram á kvöld og fara svo í handbolta. Það er bara vonandi að enginn skjóti í augað á mér aftur.

...er kosta kjör

mánudagur, apríl 07, 2003

Núna ertu hjá mér...

Ég var að hlusta á lagið "Draumur um Nínu" og fann, eftir því hve lagið stigmagnaðist, hversu mikið einmannaleikinn hrundi svoleiðis yfir mig, ég var bókstaflega kominn með tárin í augun. Þetta er magnað lag. Annars líður mér ágætlega, átti fína helgi (dálítið slappur eftir hana að vísu), var að klára Þykkmjólk með karamellubragði (sem bragðaðist mjög vel) og er að klippa saman Samfés þátt, sem að þessu sinni verður sendur út frá Hornafirði. Annars er lítið að frétta, helgin var tíðindamikil og skemmtileg en það er svo sem ekki frásögum færandi. kannski seinna

...Nína

laugardagur, apríl 05, 2003

Laugardagur...

Ég er ógeðslega þunnur og á eftir að fara á fyllerí í kvöld. Andskotinn.
best að fara að vinna.

Ætti maður að halda áfram í Mission ?

föstudagur, apríl 04, 2003

Mission Failed...

Það er merkilegt hvað maður verður þreyttur þegar maður fer seint að sofa... Minns fór á Orminn í gær, fékk mér bjór, hitti fólk og fór seint að sofa. Annað var það ekki, en þó var þetta fínt. Að vísu sé ég drullu mikið eftir því að hafað farið á Orminn, þreytan er þónokkur núna og mín bíður langur dagur. Það er spurning hvort maður skralli í kvöld ?
Eitt er þó víst að vinnuafköst eiga eftir að minnka töluvert, þarsem að ég fann geislaplötu með laginu Nínu á. Ég efa ekki að lagið eigi eftir að hljóma vel og lengi í kollinum mínum fram eftir degi, ef ekki viku.
Takk fyrir það.

Retry mission
Abort mission
Resume mission

Það er spurningin.

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Loksins kominn með heimild....

Það er búið að vera nóg að gera hjá mér í dag, alveg fullt. Ég fór í bankann og borgaði nokkra reikninga, meðal annars símreikning upp á heilar 4410 íslenskar krónur, það er meira það sem maður blaðrar. En það var ekki það eina sem ég gerði í bankanaum í dag, ég sótti nefninlega um Visa kort, svarta kortið svokallaða. Það er ekki nóg með það að ég sótti um kort, heldur setti ég feita heimild á kortið. Ætli 300.000 sé nóg ? Ég held að manni veiti ekki af, fyrst maður fer í tvær reisur í sumar. Það gekk glaður maður út úr bankanum í dag. Sú gleði hélst ekki lengi. Því miður þurfti ég að fara í heimsókn til samsærissamtakana í dag og láta bora í eina tönn. Það kostaði drjúgan skildinginn. Þannig að leiður maður, sem var glaður fyrr um daginn, gekk út úr samsærissamtökunum í dag.

það er spurnig hvort maður komist í gegnum málmleitarhliðin núna ?

Ég´ra fara til tannlæknis...

Það er mikil tilhlökkun í mér í dag því ég fæ að hitta uppáhalds félagann minn, Tannlæknin. Það er sama hversu oft maður hefur farið til hans, þá er alltaf jafn leiðinlegt að koma aftur, þó sérstaklega þegar hann glottir og segir að það sé skemmd. Stundum held ég að tannsi sé bara að plata, því þegar hann sér eitthvað athugavert við kjaftinn á mér, þá fer hann að tala á dulmáli. Hver kannast ekki við þegar tannlæknirinn setur upp "svipinn" og þylur upp "já... það er karíus í ceres baktus fremri og bíddu við... mér sýnist að það sé clorus tveir í maxus fremri" Hvað þýðir þetta allt saman ? maður kannast við karíus og baktus frá því þegar maður var lítill, en það er óþarfi að nudda þessu framan í mann þegar maður er orðinn eldri. Ég held að Þetta sé allt saman eitt stórt samsæri. Það voru í raun taannlæknar sem settu upp leikritið Karíus og Baktus því fólk var farið að gruna eitthvað, farið að greina þessi tvö orð frá öðrum og farið að hafa efasemdir um merkingu þess. Þessvegna setti Tannlæknafélag Íslands upp leikritið til að villa um fyrir okkur, blása ryki í augu almúgans.

Svo endilega munið að nota tannþráð.

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Jæja, tæknin er eitthvað að stríða okkur...

Það lítur út sem að ég sé að klúðra þessu. Ég var kominn með sex í röð en þá..... Þurfti "tæknin" að fara að hafa einhverja skoðun á þessu öllu saman. Ég veit ekki hvað kom fyrir en ég var búinn (í gær 1 apríl 2003) að skrifa mikinn og fallegan texta (sem sést einmitt hér fyrir framan) sem virtist ekki koma sér til skila... í gær. En ég skrifaði hann í gær. Það þýðir víst lítið að sakast við því núna, heldur gráta Björn bónda og safna liði.... Ég vill einmitt gráta hann Bjössa, því ég er svo tilfinningalega opinskár. Jæja, nú er ég farinn að bulla. Annars lítið að frétta, er að fara í myndatöku í kvöld og svo bandý DAUÐANS. Var í handbolta í gær, náði 100% skotnýtingu, þrjú skot og þrjú mörk. Var fínn í vörninni (að mínu mati), varði nokkur skot, meðal annars með andlitinu, það var ekki gott, bara frekar vont.

Gamalt og gott rules !

þriðjudagur, apríl 01, 2003

Ég bara skil ekki...

Ég var búinn að setja inn fullt af texta en ekkert gerðist. þó sé ég hann í "post-inu"

ég bara skil ekki...
Jæja, þá er það víst kvöldið áður....

Æj, það er svo langt síðan að ég var á Akureyri að ég er búinn að gleyma flest öllu eða finnst ekkert gaman að skrifa um það núna. En svona var það nokkurnveginn í hnotskurn. Kom á laugardaginn 29 marz, með flugi (ég ferðast ekki í rútu eða bíl eins og sótsvartur almúginn). Lenti í Reykjavík og var búinn að mæla mér mót við félaga minn, hann Brynjar Einarsson. Því miður fyrir hann (og mig líka) þá komst ég með næstu vél norður, þannig að ég hafði 10 mín. spjall við félagann. Það var svoltið skítt, þar sem hann var búinn að fá frí úr vinnuni. Um 15:45 lenti vél Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli. Þar beið móðir mín eftir mér. Svo fór ég í skylduheimsóknir hér og þar um bæinn og beið í rauninni eftir kvöldinu (enda var aðalástæðan að fara að skralla). Dagurinn leið og kvöldið kom. Át dýrindis mat sem mamma eldaði, það var kanadískt svínaket, mjög góð máltíð sem var skoluð niður með Cato Negro rauðvíni, kannski fullmiklu, þar sem ég kláraði flöskuna. Auðvitað reyndi ég að fara á söngkeppnina sjálfa en komst ekki inn sökum miðaleysis. Í raun skipti það engu máli, því ég nældi mér í drykkjufélaga fyrir utan, þá Andra Rey (son Haralds Bjarnasonar, ritstjóra Auðlindarinnar, fréttaþátt um sjávarútvegsmál) og Emil. Þar var drukkið og mikið gaman og enduðum við í Partý hjá Kenny, einhver félagi frá Bandaríkjunum sem er hér á Íslandi að spila íshokkí. Þar var ágætis teiti, ágætis félagar sem voru samakomnir þar. Eftir Teitið var haldið niðrí Bæ. Nota bene: á þessum tímapunkti var ég orðinn þá þegar nokkuð ölvaður. En skiptir ekki máli, í bæinn fór ég og hélt áfram drykkjuni í góðra vina hópi. Pöbbaröltið stóð langt fram á nótt og hitti maður margan góðan manninn. Eins og áður segir þá var ástandið orðið frekar slæmt og fór versnandi, þannig að smáatriði detta út. En þannig var þetta í hnotskurn, fór í bæinn á pöbbarölt og skemmti mér konunglega. Eyddi 770 í leigubíl heim og sé alls ekki eftir því, ein besta fjárfesting sem ég hef gert á ævinni, ég var ekki að nenna að labba 3,1 km heim. Daginn eftir var ég þunnur, eins og vera ber.

Takk fyrir það og þetta er nr. sjö í röð !

mánudagur, mars 31, 2003

Góð þynnka er gulli betri

Guð hvað maður verður ferskur ef maður upplifir góðan þynnkudag. Dagurinn í gær byrjaði nú ekki vel, vaknaði með hausverk dauðans og það eina sem ég gat gert var að fara inn á klósett að æla. Eftir að hafað tæmt magann, eða gert hann klárann fyrir frekari neyslu seinna um daginn eins og ég vill frekar kalla þessa athöfn, þá var farið og spjallað við mömmu, sem hló nú bara að mér. Þá lagði ég mig aftur, en kom fílefldur til baka og tilbúinn í Feita neyslu. Þannig að ég og mamma fórum og fengum okkur skíthoppara á Crown Chicken eða "Crown City" eins og staðurinn hefur verið kallaður áður. Eftir matinn var farið á þynnkurúnt og ís snæddur á meðan. Ástandið var gott sem fullkomið. En góðir hlutir taka víst líka enda, enda þurfti ég að komast heim til Egilsstaða. Það kom í hlut Þorsteins Helga Ásbjörnssonar að ferja mig aftur tilbaka í austurlandið. Það var góður rúnturm, enda vorum við líka báðir tveir í svipuðu ástandi, þ.e. þunnir (þótt ég hafi verið í ívið verrra ástandi). Eftir þennan góða rúnt var komið að eyða kvöldinu í þynnku, þannig að mynd varð fyrir valinu enda hvað annað er betra til þess fallið ??? þynnka á myndar er eins og pízza án pepperónís. Það vildi einnig svo heppilega til að Ríkharður Hjartar Magnússon var líka í slæmu ástandi (þunnur) og var meira en til í þynnkumynd. Mér leið vel þetta kvöld og dag, enda var ég í góðum félagsskap góðra manna. Þannig var þynnkan hjá mér í hnotskurn. Fregnir af kvöldinu sjálfu koma seinna, mér fannst að þynnkan ætti góða umfjöllun skilið, enda var hún góð og flakkaði landshluta á milli.

p.s.

Sex í röð...

sunnudagur, mars 30, 2003

Sá fimmti...

Þynnka dauðans !

Fór út á djammið í gær á Akureyri og er að upplifa eftirköstin eftir gærnóttina. Ég skildi ekkert í því afhverju ég væri svona þunnur en komst svo að því seinna að ég stútaði heilli rauðvínsflösku (cato negro) áður en ég fór í bjórinn, þar liggur ábyggilega hundurinn grafinn. Þannig að maður bíður bara eftir matarlystinni og skreppur niðrí bæ í eitthvað feitmeti, svona rétt til að rétta sig af. Ég held að ég bíði með að skrifa eitthvað meira (þarf að hlaða batteríin). Þannig að við bíðum betri heilsu, bæði andlegrar og líkamlegrar áður en haldið verður áfram með skriftir.

Bið að heilsa.

laugardagur, mars 29, 2003

Fjórir dagar, það gerist vart betra en það.

Halló mamma :) ég er koma til Akureyris í dag.

Jesssörí Bob, norðanmenn meiga fara að vara sig því drengurinn knái að austan, sem á ættir sínar að rekja norður í Eyjafjörðinn, er að fara að legga leið mína norður til Akureyris. Planið er víst þannig að, hitta mömmu og borða, hitta félaga og fara á fyllerí síðan á morgun verður farið í heimsóknir, til ömmu og svoleiðis. Þannig að ég á góðan dag fyrir höndum. Ég fer fljúgandi (keyri ekki eins og sótsvartur almúginn) þannig að ég haf smá tíma í Reykjavík til að hitta Brynjar Einarsson Aðfangameistara. Það er góður félagi, sleppir matatímanum til að getað náð í mig á völlinn og fara að brasa. Semsagt ágætis mission fyrir höndum næstu 48 tímana, bara að maður nýti þá vel.
Fjórir dagar, það gerist vart betra en það.

Það var föstudagsfjör í gær.
Að vanda var föstudagur Bóndans stútfullur af stuði og skemmtun. Eftir vinnu var elduð sannkölluð "gourmet" máltið sem samanstóð af Ora fiskbúðing og Ora bökuðum baunum. Þetta er samsetning sem getur bara ekki klikkað, enda gerði hún það ekki. Eftir "vel" útlátna máltið var imbinn tekinn fyrir í svona hálftíma, þá var staðið upp og farið með bílinn í viðgerð, á ótilgreindum stað. Það er nefninlega góður maður sem ætlar að hjálpa mér að hjúkra að greyið bílnum mínum svo ég þurfi ekki að fara með hann verkstæði. Svona fyrir þá sem ekki vita þá er bíllin minn nefninlega Mustang, eða kannski er betra að segja freðmýra Mustang. Eftir það allt saman var haldið í Faxatröðina á nýjan leik, nema ekki í kjallarann minn, heldur í Partý búlluna hans Gazza . Þar voru samankomnir starfsmenn flugfélags íslands á Egilsstöðum til að spila partý spilið. Það gekk alveg ágætlega, þrátt fyrir að öldungaliðið hafi svindlað gríðarlega með einhverskonar handabendingum og dulmáli, sem einungis menn á fertugsaldri eða ofar skilja, þannig að ég og Davíð félagi minn gripum til örþrifaráða til að sporna við þessari þróun. Þannig að við fórum að beita sömu aðferðum, handabendingar og dulmál, nema hvað að við beittum líkamlegri snertingu líka. Upp kom spurning sem var eitthvað á svo hljóðandi "eftir hvað mörg stig gefst uppgjafarétturinn til mótherjans í borðtennis" Davíð vissi svarið (enda var það fyrir framan hann) en ég ekki. Davíð tók vel eftir að ég hafði ekki hugmynd um það, þannig að hann læddi fót sínum að læri mínu og snerti mig lauflétt fimmi sinnum, sem var rétta svarið. Enginn tók eftir neinu en menn voru mjög undrandi á skyndilegri vitrun minni, en gátu ekkert sannað. En það dugði víst ekki til, þar sem þeir gömlu svinduðu mun meira en við og hirtu þar af leiðandi sigurinn af okkur. Mjög svekkjandi en þetta var samt skemmtileg og ódrengileg keppni, vonandi halda leikar áfram síðar svo við "strákarnir" getum tekið gömlu kallana í bakaríið.

föstudagur, mars 28, 2003

Heilir þrír dagar í röð gott fólk ! þrír dagar.

Ég upplifði merkilegan dag í gær. Dagurinn einkenndist þó aðallega af sakamáli sem spratt upp kollinum á milli 18:40 - 19:00 í gær. Það vildi nefninlega svo merkilega til að handtösku starfsfélaga míns var hnuplað í gær, beint fyrir framan nefið á okkur ef svo mætti segja. Atvikið sem átti sér stað á vinnustað mínun, Ríkisútvarpinu á Austurlandi, koma alveg flatt upp á okkur, enda vorum við ekki í nema svona 8 - 10 metra fjarlægð frá handtöskunni miklu (að vísu var hún í hvarfi frá okkur). Þetta atvikaðist þannig að starfsfélagi minn var búinn að gera allt klárt fyrir heimferð, ganga frá skrifstofunni sinni, taka saman persónulegar eigur osfv. Félagi þessi lagði svo handtöskuna títtnefndu upp á borðið hjá andyrinu og leit við inn í útsendingu, fylgdist með í röskar 20 mínótur eða svo. Að útsendingu lokinni var slegið létt á lær og hópurinn var tilbúinn til brottfarar, en það var eitthvað sem vantaði.... TASKAN. Á þessum 20 mínótun hafði óprúttinn aðili læðst inn í útvarp, (þurfti meira að sega að opna dyr til þess) seilst í töskuna og numið hana á brott. Um leið og allt þetta uppgvötaðist, var farið að leita af vitnum, hringt í lögreglu og vettvangur einangraður. Eftir um 2 tíma rannsóknarvinnu og vettvangskannanir var haft upp á kauða, menn sleppa ekki svo auðveldlega frá starfsfólki RUV. Taskan góða var heimt úr helju og óprúttna aðilanum var komið hendur laganna varða. Eins og sést þá borga glæpir sig ekki og menn ættu að skammast sín á því einu saman að hugsa um að fremja svona ódæðisverk ! En hið góða sigrar ávallt að lokum á meðan hinir ópruttnu sauðir sitja í súpunni.

Glæpir borga sig ekki !

fimmtudagur, mars 27, 2003

Tveir dagar í röð á blogginu ! þetta er náttúrulega gríðarleg harka af manni að standa í þessu öllu saman, ég meina, ég er að setja met !!! Takið eftir því MET ! En nóg um minn gríðarlega dugnað í hinum stafræna heimi. Það ku nú víst vera menningarferð á næsta leyti á vegum Menntaskólans á Egilsstöðum, eða frekar á vegum nemendafélagsins. Höfuðstaður norðurlands varð fyrir valinu þetta skiptið (Akureyris), en ég veit ekki hvort ég geti lagt land undir fót, þarf að laga Löduna mína, en ég nenni því ekki og langar miklu meira að fara norður og hitta mömmu og litlu frænku. Það er spurning hvað verður fyrir valinu.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Þá er það að fara að opna hugan gagnvart öllum heiminum, allir sem vettlingi geta valdið komast að mínum innstu hugarórum og kenndum, það er ekkert sem ég get gert í því nema að loka huganum og binda fyrir augun, loka mig inni... en ég vil það ekki, ég vill vafra frjáls um hina æðisgengnu netmiðla alheimsins, koma öllu á annan endan sem fyrst ! ég vill Sigra !!!
Jæja þá er maður víst byrjaður að blogga, ég vona bara að ég verði duglegur í að pæla í hlutunum og koma skilaboðum heimsins áfram.