föstudagur, nóvember 04, 2005

DVD

Í gær horfði hún amma mín á DVD. Hún var voðalega ánægð með það, enda skemmtilegt efni sem var á dagskrá, en ég hafði fengið lánaðan DVD disk frá bróður mínum um Vestmannaeyjargosið 1972.



Amma spurði svo hvað DVD væri nú eiginlega og ég sagði henni að það væri ensk skammstöfun á Digital Video Disc. Hún var ekki lengi að tengja og sagði "já, ég hef nú heyrt um þetta digital áður".

Nú er bara að bíða eftir að amma verði forfallinn DVD sjúklingur sem kaupir allar helstu gamanþátta seríur sem í boði eru, eins og t.d. Friends, Simpsons og allt þar á milli.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Að fara í sund

Eftir langan hjólreiðatúr frá Brautarhóli til Akureyrarsundlaugar með tilheyrandi átökum, skellti ég mér í sund með svissnesk ítalskri stúlku sem býr í Munchen í Þýskalandi.


Þetta á ég við þegar ég fer í sund.

Auðvitað gleymdi ég svo handklæðinu mínu heima.

Menn voru farnir að líta mig hornauga inn í karlaklefa, sprikklandi nakinn um, bíðandi eftir að ég þornaði sæmilega til þess að klæða mig í fötin.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Alsæla !

Í gær dó ég næstum því úr alsælu þegar ég kom heim eftir erfiða fótboltaæfingu í Boganum. Það fyrsta sem ég gerði var að læðast inn í ísskápinn heima og opna ís-ískaldan bjór, hella honum í glas og drekka ölið í löngum og góðum sopa.

Eftir fyrsta sopann heyrðist svo eitt gott "Ahh" og það lá við að ég myndi deyja, þetta var svo gott.

Verst að þetta var eini bjórinn sem var eftir í ísskápnum, svo ég get ekki endurtekið leikinni í kvöld, en minningin lifir áfram.


Ölið var sopið þegar í glasið var komið !

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Rökfærsla Hómers

Núna um daginn var ég að horfa á þátt með Hómeri nokkrum Simpson frá Springfield í Bandaríkjunum. Það er svo sem ekki frásögum færandi nema hvað að ég tók eftir stórkostlegri röksemdafærslu hjá kappanum, sem lét mig skellihlæja í svona þrjú korter.

Þannig er með mál í vexti að Hómer ætlaði að verða ríkur af fitubransanum, þ.e. selja fitu. Nú fita er nú kannski á hverju strái en það er erfiðara að nálgast hana í sínu hreinasta formi, en Hómer deyr ekki ráðalaus.

Hann tók sig til að fór að steikja beikon í massavís, sem hann gaf síðan hundinum. Samtals tóks honum að vinna úr beikoninu 1 kíló af fitu, sem er nú þónokkuð.

Það er svo ekki að spyrja að því að hann fór með herlegheitin til fitukaupandans sem keypti alla fituna á 27 cent. Sjaldan hef ég séð Hómer jafn glaðan.

En þá hafði sonur hans, Bart, á orði að beikonið sjálft hefði kostað c.a. 27 Dollara.

Þá hófst röksemdarfærslan.

Bart: "Hómer, þú veist að beikonið kostaði 27 dollara"

Hómer: "Hvað með það, það er mamma þín sem keypti það"

Bart: "já, en mamma fær peninginn frá þér"

Hómer: "já, og ég fæ peninginn fá fitu, hvað er vandamálið ?"

Mig minnir að þetta hafi verið einhvernveginn á þessa leið. Hér má samt sjá glögglega gott dæmi um góða röksemd. Við ættum öll að taka okkur Hómer til fyrirmyndar.

mánudagur, október 31, 2005

Hvað gerði ég ekki !

Helgin sem leið var ansi viðburðarík og það tæki aldur og ævi að taka fram það sem ég gerði. Því hef ég ákveðið að benda á nokkra punkta sem ég gerði ekki um helgina, til þess að setja mynd á helgina. Þið, lesendur góðir, getið fyllt upp í eyðurnar.

Það sem ég gerði ekki var m.a.

* Vaknaði snemma á laugardaginn
* Fór snemma að sofa á föstudaginn
* Fór út að hlaupa
* Lærði eins og hestur
* Sat heima á laugardagskvöldi
* Neyta áfengra drykkja á föstudagskvöldi
* Neyta áfengra drykkja á laugardagskvöldi
* Leiðast
* Vera á Internetinu

Þetta er það helsta sem ég gerði ekki um helgina. Það verður samt að vera leyndarmál hvað það var síðan sem ég gerði, því það er hætt við að lesendum standi ekki á sama ef ég upplýsi það...

Og hana nú !