miðvikudagur, apríl 10, 2013

Fróðleikur dagsins - Díterpene og kaffi

Talið er að kaffi sem inniheldur dípertínin "Cafestol" og "Kahweol" geti hækkað kólestról. Frá því hafa greint hollenskir vísindamenn við landbúnaðarháskólann í Wageningen. Þessi efni eru þó einna helst að finna í "Kaffi Arabica", sem er sérstök gerð að kaffi sem á ættir sínar að rekja til Eþíópíu. En talið er að kólestról magn í blóðinu geti hækkað um 8-10% við reglulega kaffidrykkju

Þetta á þó eingöngu við ósíað kaffi, það er kaffi sem er ekki síað í gegnum pappírssíu, eins og er notað í venjulegri uppáhellingarkaffivél. Ósíað kaffi er pressukönnukaffi, espressokaffi og ketilkaffi, auk annarra aðferða sem mér er ekki kunnugt um.

Tvær helstu tegundir kaffis sem notaðar eru til ræktunar eru kaffi Arabica og kaffi Canephora, sem er betur þekkt sem kaffi Robusta. Arabica kaffið er hins vegar talið ljúffengara og mun bragðbetra en það hefur tvisvar sinnum fleiri litninga en róbusta og gefur af sér kaffi með flóknari bragðeiginleika. Robusta kaffið er harðgerðara og fljótvaxnara, bragðið er hrjúfara og er því kaffið aðallega notað í iðnaðar- og skyndikaffi.

Þannig að þeir sem eru með of hátt kólestról í blóðinu ættu að forðast kaffi Arabica eða ósíað kaffi, sem er miður þar sem kaffi Arabica og ósíað kaffi smakkast yfirleitt mun betur en aðrar kaffibaunir og síað kaffi.

Heimildir:
Wikipedia: Kaffi
Wikipedia: Diterpene
Mbl.is: Kaffi og kólestról
Te og kaffi: Kaffiræktun

Engin ummæli:

Skrifa ummæli