þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Tækifæri?

Það er alltaf gaman að heyra þegar aðgerðir eru í gangi til þess að sporna við losun gróðurhúsaloft-tegunda og þá sérstaklega á þeim vettvangi sem er okkur næst. Ég er þá að tala um samgöngutæki. Eins og flest okkar vita þá er Ísland mikil bílaþjóð og bílinn er notaður óspart, bæði í langar og stuttar vegalengdir. Bílaumferðin er orðin mjög mikil og þá sérstaklega í Reykjavík, eins og ég hef tekið eftir upp á síðkastið. Það má ef til vill skýrast af því að einungis ein manneskja er nánast í hverjum bíl sem er á ferðinni.

Þetta er eitthvað sem er að verða óhjákvæmileg staðreynd og erfitt getur verið að sporna við þessari þróun. Ég held að við verðum að sætta okkur við aukna bílaumferð á komandi árum, jafnvel þó svo að bílakaup landsmanna eru að minnka.

Hvað er þá til ráða til þess að minnka losun gróðurhúsaloft-tegunda ef ekki er hægt að breyta bílavenjum landans ?

Jú, með því að breyta bílunum. Samkvæmt frétt sem er í Fréttablaðinu í dag, þá kemur fram að nýtt tilraunaverkefni er að fara í gang sem gengur út á það að fjölga vetnisbílum í umferðinni. Þó svo að einungis sé um tilraunverkefni að ráða, þá er þetta eitthvað sem við ættum að leiða hugan að.

Hér er tækifæri fyrir okkur Íslendinga til þess að verða leiðandi þjóð á þessu sviði, það er að taka upp vetnisknúna bifreiðar.

Okkur hefur gengið vel með strætisvagna-tilraunverkefnið og þykir mér miður að einn vagnanna skuli vera hættur að ganga.

Ef við lítum samt á svona tækifæri, þá er hægt að gera svo margt ef viljinn er fyrir hendi.

Hugsum okkur það tækifæri sem Akureyrarbær hefur ef bænum dytti hug að taka upp vetnisknúna strætisvagna ? Maður gæti rétt ímyndað sér þá umfjöllun sem bærinn myndi fá ef almenningssamgöngur væru ekki einungis fríar heldur eins umhverfsivænar og hægt væri að hugsa sér.

Fríar almenningssamgöngur sem væru inntar af hendi af vetnisknúnum strætisvögnum gæti samt sem áður breytt hugarfari fólks til hins betra og fólk færi að hugsa að sér með bílferðir sínar. Það teldi ég samt ólíklegt, því Íslendingar eru orðnir svo háðir bílnum sínum. Einstaklingshyggjan og stressið ræður þar held ég ríkjum, því við verðum að komast eins hratt milli staða og við getum, án þess að hugsa um einhverja aðra en okkur sjálf.

Best væri samt að allir fengu sér "Bronco" eins og ég, því þá þyrfti ég ekki að bölva öllum þessum fjandans bílum sem virða aldrei gangbrautarmerkin !


Framtíðin ?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli