föstudagur, mars 10, 2006

Skipulags Sigmar

Það er sko hægt að segja með sanni að ég get skipulagt mig upp á mínótuna !

Þannig er með mál í vexti að ég átti að skila inn ritgerð í Fjölmiðlafræði um rannsóknarblaðamennsku í tímanum í morgun, sem og ég gerði.

En það þykir kannski ekki frásögum færandi nema það að ég vissi af þessari ritgerð frá því í janúar og var svo sem alltaf á leiðinna að klára ritgerðina á skikkanlegum tíma, sem og ég gerði.

Ritgerðin var búin hvíla yfir mér eins og mara síðastliðnu tvær vikur en ég hafði samt aldrei tíma til þess að leggjast í smíðarnar sökum einhverra óskiljanlegra anna.

En ég byrjaði sumsé að vinna í ritgerðinni í gær, einum degi fyrir skiladag. Ég las og las í allan gærdag, alveg fram að kvöldmat og ég var, satt að segja, orðinn ansi lúinn eftir það.

Eftir kvöldmatinn þá var sumsé ákveðið að taka smá "lærdómspásu" og ákveðið að tylla sér fyrir framan imbann og slappa örlítið af. Það vildi nú samt ekki betur til en að hvert gæðaefnið rak upp, hvert eftir öðru og alltaf var erfiðara og erfiðara að hafa sig upp úr mjúkum og þægilegum leðursófanum.

Það var ekki fyrr en að einni hrísmjólk, ópal pakka og nokkrum klukkustundum liðnum að ég drattaðist á lappir og bretti hressilega upp á ermarnar og leit á klukkuna, vongóður um tímann.

Klukkan var nú ekki nema rétt um ellefu.

Það var því unnið hörðum og hröðum höndum það sem eftir lifði kvölds, nætur og morguns.

Um átta leytið í morgun sat ég uppi með sveittan skallann og eitt stykki tíu blaðsíðna, fullunna og spegilslétta, ritgerð.

Þá var bara eftir að stinga sér í vettlingana, smella húfunni á höfuðið og renna upp úlpunni og hjóla af stað á vit ævintýranna og skila ritgerðinni á hárréttum tíma til brosmilds kennara sem tók við meistaraverkinu með bros á vör.

Og hana nú !

Engin ummæli:

Skrifa ummæli