föstudagur, janúar 14, 2005

Liverpool Vs Manst´eftir júnæted ?

Stórleikur á morgun laugardag kl 12:45 þegar Manchester United kemur í heimsókn á Anfield. Ég býst við að þetta verði alveg stórskemmtilegur leikur sem endar vafalaust með sigri rauða hersins. Í raun er ekkert annað ásættanlegt, því annars fer ég í mikla fílu og verð ekki viðræðuhæfur næstu daga.


Við skulum svo öll standa saman og halda með Liverpool svo hinn ungi Shaun O´Nielsen verði ekki fyrir vonbrigðum.

Áfram Liverpool !!!

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Catan partý

Það er búið að vera mikið um átök í kjallara Faxatraðar 3 síðustu misseri, enda er búið að vera að deila um alheimsyfirráð á eyjunni Catan, sem er numin jafnvel nokkrum sinnum á kvöldi. Sigmar, leppstjóri Faxatraðar kjallarans stendur samt uppi sem alheimsvaldur Catan eyjunar, þarsem hann er búinn að vinna flestar baráttur um þessa forboðnu eyju í kjallaranum.

Catan landstjóri kjallara Faxatraðar var á dögunum heiðraður af Catan sambandi alheimsins en það var Klaus Treppenhaus, keisari Catan veldissins í Þýskalandi sem gerði það, en þaðan er einmitt eyjan Catan upprunnin.

Sigmar var heiðraður með splunkunýju Catan spili sem er gætt þess eiginleikum að allir sem spila það fá gríðarlegan góðan skeggvöxt á efri vör, samskonar og Klaus er með.

laugardagur, janúar 08, 2005

Catan landnemar


Ég var að kynnast frábæru spili í gær, Catan landnemar. Þetta er hreint og beint geggjað spil, þar að segja ef þú ert nörd, eins og hitt sjálfið mitt. Þetta er borðspil í anda civilisation og þú átt að byggja borgir, vegi og þróast yfir í að verða konungur alheimsins í spilinu. Það er skemmst frá því að segja að við tókum þrjú spil í gær og ég vann tvisvar, sem þýðir að ég er bestur í öllum alheiminum.

kv Sigmar Catan kóngur.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Lettlandsstuð

Nú er maður víst á leiðinni til Lettlands í hálft ár.

Úff

Maður er svona beggja blands, en það er ekki spurning að maður fari, því annars sér maður eftir þessu allt sitt líf. Ég er nú hræddur um það.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Smellið hér til að verða vitna að stórkostlegu ferðalagi
Ég og Eva skruppum austur til Frakklands núna í haust og tókum ungfrú Kodak með í för. Hún er þeim kostum búin að geta lýst upplifun sinni með mynd ! Endilega fylgist með ævintýrum Evu og Simmi í æsiför sinni um Evrópu og smellið á turn Eiffels.

föstudagur, desember 10, 2004

Bóndinn í góðum félagsskap


Skrapp til Frakklands og hitti eina feita tjellingu...

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Sunnudagsblogg

Læra leika lita, þið ættuð bara að vita, hver rosalega er gaman í kjallaranum hjá mér.

Það er alveg hræðilegt að sýna svona mikið af enska boltanum um helgar, því maður getur enganveginn einbeitt sér með svona guðdómlega afþreyingu í imbakassanum. Sveiattan og skamm skjár 1, þetta er ekki sniðugt lengur !

laugardagur, nóvember 06, 2004

Harðfiskur á laugardagskveldi

Það er laugardagskvöld og ég sit einn heima að læra. Ég er að borða harðfisk í kvöldmat, ættaðan úr Pollinum Akureyri og hertur á grálúðumiðum fyrir vestan land.
Ég er hræddur um að ég fari í Brávelli 5 á eftir og spili Monopoly og súpi bjór, bara svona rétt til að bjarga geðheilsunu.

p.s Liverpool tapaði í dag og það var ömurlegt.


Hér má sjá ýsuna hana Lísu herrta og tilbúna til átu. Hún varð ekki fyrir vonbrigðum þegar inn fyrir varir Sigmars var komið, enda "sporðrenndi" hann henni niður á skömmum tíma með smá viðbiti. "lífið gerist vart betra eftir svona máltíð" sagði Sigmar eftir ýsu Lísu átið.

mánudagur, október 18, 2004

Hva, er bara kominn vetur ?

Ég held að það hafi ekki dulist neinum hér austanlands í dag að veturinn hafi gert eitthvað vart við sig. Það er samt magnað hvernig hann byrjar á þessu. Hann er ekkert að læðast upp að okkur ok koma yfir landið hægt og bítandi. Nei, hann tekur þetta með pompi og prakti, eins og sönnum herramanni sæmir !


Það er svo sem í fínu lagi að fá smá hríðarbyl yfir sig, það bara minnir mann bara betur á hvað sumarið er gott, en það getur verið alveg djéskoti kalt að labba í skólan í svona veðri.


Og hver nennir að fara í neysluferð þegar Kári vinur minn lætur svona. Ég þarf meira að segja að hringja í Riddaraliðið til að skila inn DVD disknum sem ég fékk að láni í gær frá söluskála khb. Það er von að riddari götunar komi mér til bjargar...

laugardagur, október 16, 2004

Af kennaraverkfalli

Ég held að deilendur í kennaraverkfallinu ættu að fara að semja hið snarasta. Nú um daginn, þegar ég var að labba í vinnuna, þá heyrði ég einhver óhljóð. Við nánari athugun, þá sá ég ungan dreng á grunnskólaaldri vera að elta lítinn kött, geltandi eins og hundur. Við þetta set ég stórt spurningarmerki. Er ekki löngu kominn tími til að fara að leysa úr þessari deilu, áður en ungdómur landsins missir endanlega vitið.


Kötturinn Árni hlaut mikinn tilfinningaskaða við áreiti unga drengsins og hyggur á hefndir. Á myndinni sést Árni í hryðjuverkaskóla sameinaða húskatta í Austur skaftafellssýslu.

föstudagur, október 15, 2004

Söluskálinn og pitsurnar

Í gær, héldum við vinnufélagarnir, Ásgrímur Ingi og ég, á vit ævintýranna í söluskála KHB á Egilsstöðum. Við skelltum okkur á hið vikulega pitsahlaðborð þar á bæ og létum til skarar skríða. Við mættum til átu um 18:20 og fórum ekki fyrr en um áttaleytið. Eftir þann tíma var söluskálinn sextán pitsasneiðum, tveim kokteilsósudollum, um 2 lítrum af gosi og smá frönskum fátækari. Fyrir þetta greiddum við einungis 2000 krónur, og teljum við okkur hafað náð upp í kostnað, þ.e. hráefniskostnað, sem var takmarkið. Að vísu var reynt að eitra fyrir okkur í millitíðinni með jalapenó pipar, en allt kom fyrir ekki, og þrátt fyrir að forsvarsmenn söluskálans hafi reynt að bregða fyrir okkur fæti þá héldum ótrauðir átunni áfram.


Fregnir herma að Khb sé búið að endurskoða afstöðu sína gagnvart pitsahlaðborðum, þar sem frést hefur að einstaka aðilar misnoti hlaðborðið alvarlega. Málið er í rannsókn hjá Heilbrigðiseftirliti austurlands.

miðvikudagur, október 13, 2004

Merkisatburður í ljósmyndasögu Íslands !

Stórmerkar myndir náðust af einstökum atburði nú fyrir skömmu þegar fæðing tveggja Íslendinga festist á filmu í Mývatnssveit núna fyrr í Haust. Ritstjórn Heimsins í hnotskurn, hefur ákveðið að deila þessum merka atburðu með alheiminun og sýna enn sem fyrr sérstöðu okkar íslendinga. Halldór Ásgrímsson kvað þetta vera merki um mikinn myndugleika þjóðarinnar og sýndi öðrum þjóðum úr hverju við værum gerð, bókstaflega. Ólafur Ragnar Grímsson tók í saman streng að sagðist ætla að senda fálkaorðuna með póstkröfu strax næsta dag. Ekki náðist í Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing vegna þessa máls.

Hér getið þið orðið vitni að þessum merka atburði
Hér sést Stefán borubrattur að skríða úr gjótunni. Smellið á myndina til að verða vitni að fæðingu Sigmars.

mánudagur, október 11, 2004

Á slóðum snillinga eða er fjárhagur menntaskólanna algjörlega í rúst ?

Núna í dag var ég að safna heimildum í ritgerð eina sem ég á að gera fyrir áfanga einn í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Til þess verknaðar tók ég mig til og ljósritaði (löglega) upp úr þónokkrum bókum úr bókasafni Menntaskólans á Egilsstöðum. Það er svo sem ekki frásögum færandi nema það á ljósritunarkortinu sem ég var með, var ritað nafn eins kunnugrar dagbókasmiðs hér um slóðir.

Það var enginn annar er Finnur Torfi Gunnarsson sem hafði merkt sér þetta merkilega ljósritunarkort endur fyrir löngu. Það má líta á þetta á tvenna vegu. Annars vegar tel ég mig vera á slóðum merkra manna með að handleika þvílíka forngrip en hins vegar má setja stórt spurningamerki við fjárhag Menntaskólans, að geta ekki endurnýjað svo lítin og einfaldan hlut. Ég held að ég kjósi fyrri kostinn, hann hljómar betur.


Finnur Torfi Gunnarsson var himinlifandi við þennan stórmerka fornleifafund í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Aðspurður sagðist þó hryggja fjárhag skólans, sem væri í "algjöru fokki" eins og hann orðaði það.

sunnudagur, október 10, 2004

Glænýjar gamlar myndir !

Höttur - Sigmar Bóndi 0 - 1 Rúst !!!
Þokkalega rúst sumarsins !

föstudagur, október 08, 2004

Lestrarslys !

Hræðilegur atburður átti sér stað á virkjunasvæði Kárahnjúkarvirkjunar þegar portúgalinn José Rea Sandreas las yfir sig. Atburðurinn átti sér stað um kvöldmatarleytið þegar lestur stendur yfir í tómstundaskálum vinnubúðanna. José, sem var niðursokkin í portúgalskt tímarit, las ógætilega og fór á endanum yfir um. Maðurinn var ekki í belti, enda nýbúinn að éta yfir sig af stafapasta og stafakexi sem talin eru hafa átt einhvern þátt í slysinu. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Egilsstöðum, vinnueftirliti ríkissins og menntamálaráðuneyti. Maðurinn er talinn hafa verið undir áhrifum áfengis við lesturinn.


Aðkoma að lestrarslysinu var slæm, en sjúkraflutningamenn á kárahnjúkasvæðinu báru sig þó vel.

fimmtudagur, október 07, 2004

Haustið er loksins komið !

Haustboðinn er kominn með roða í nefi. Já nú er maður búinn að næla sér í haustkvefið, ekki slæmt það. Það er alltaf svo yndislega gaman að vakna á morgnana og byrja daginn á því að hreinsa allt kögglótta, brúna, þykka og geðslega slímið sem leynist í hálsinum á manni. Ekki má heldur gleyma sífelldu nefrennslinu sem eykst með hverju hnerrinu, þetta er stórkostlegt ástand. Kvefið er svo sannarlega haustboðinn góði.


Stuart Bournmoth, erlendur verkamaður á Kárahnjúkum tók kvefinu fagnandi í dag ásamt Sigmari, og hélt upp á daginn með góðu "snýti"

laugardagur, október 02, 2004

Norður...

Nú er maður kominn norður yfir heiðar. Maður er heima hjá mömmu sín og er að bíða eftir matnum, sem samanstendur af norðlensku lambi sem hefur endað daga sína til þess að uppfylla þarfir mínar. Ég þakka mömmu lambsins kærlega fyrir.

Svo er það bara veruleikinn á morgun, heima í kjallaranum á Egilsstöðum, í lærdóminn. Ekki slæm skipti það.

...en ekki niður, samkvæmt kortinu !

föstudagur, október 01, 2004

Alheimslesendur.

Ég hef tekið eftir því að það eru um tíu manns sem skoða síðuna daglega. Tel ég vera þetta vera sama hóp og hefur ritað nafn sitt í gestabókina mín, en sá hópur telur um ellefu manns. Vil ég þakka þeim fastagestum sem heimsækja síðuna daglega, kærlega fyrir og hvetja þá til að lesa áfram um ævintýri mín á internetinu og alheiminum.

Ekki væri verra ef þig mynduð nú bera út boðskap minn um gjörvalla jörðu, svo lesendur hér á Íslandi sem og í Zimbabwe gætu notið fróðleiks minns um líf tæknitrölla í veröld þessari sem við lifum í.

fimmtudagur, september 30, 2004

Tannlæknir, taka 2.

Úff, já úff. Ég er víst að fara aftur til tannlæknis núna í dag og láta gera við eina "skemmd" sem að hann segir að sé til staðar. Það merkilega var að ég var ekki boðaður fyrr en eftir að samsæriskenningin mín um FÓTA (félag óprúttina tannlækna alheimssins) birtist á internetinu. Er þetta eingöngu tilviljun ? eða er verið að fylgjast með manni ?

Ég verð samt að segja að ég er svolítið skelkaður við að fara aftur til tannsa.


Ætli móttökurnar verði eitthvað á þessa leið ?

þriðjudagur, september 28, 2004

Tannkrem og þessháttar óþverri.

Hvernig stendur á því að á tannkremstúbum sem maður kaupir út í búð sé alltaf innihaldslýsingin á einhverju óskiljanlegu og óþekktu hrognamáli. Ég á því að þetta sé samsæri FÓTA (Félag óprúttina tannlækna alheimssins)að senda út tannkremstúbur með mismunandi tungumálum um allan heim svo innihaldslýsingin skiljist ekki. Ég þykist nefninlega vita að þessu svokölluðu "tannkrem" séu bara einhverjar sykurlausnir, duldar með miklu piparmyntubragði, unnu úr erfðabreyttum sykri sem sé sérhannaður til eyðingar glerungs í tönnum vesturlandabúa. Hver hefur ekki heyrt predikunarpistilin frá tannlækninum, "mundu svo að vera duglegur að bursta" Svo sér maður eitthvað skítaglott á viðkomandi, og það eina sem vantar er bara "vondu kalla" hláturinn í lokin til að undirstrika illskuna.


Hvernig á nokkur lifandi maður að skilja þetta ?

Hvað getum við gert ? Eru eftir einhverjir heiðarlegir tannlæknar eftir sem eru að berjast gegn FÓTA eða er þetta einhver svarinn eiður um leið og þú hefur nám í tannlækningum að berjast gegn harðasta efni líkamans, glerungnum ?

Hvað er til bragð að taka ? Erum við kannski bara föst í þessum vítahring tannækninga sem hefur heltekið líf almennings um gjörvallan heim ? getum við, almúginn barist gegn þessum "skottu" tannlæknum, eða eigum við bara að sætta okkur við fávisku okkar og láta eins og ekkert sé, láta bara eins og þetta sé hluti af okkar daglega lífi í alheiminum.