fimmtudagur, apríl 06, 2006

Ég er ekki að nenna þessu...

Það er alveg merkilegt hvað ég er latur núna. Ég er núna í þeim gírnum að nenna bara að sitja heima og lesa en ekki að gera neitt annað.

Það er pínu vandamál því ég þarf að skila inn skýrslu á morgunn og svo að byrja á ritgerð bráðum.

Best væri bara ef ég gæti bara setið og lesið og tengt mig við tölvu og skilað inn upplýsingunum sem koma inn um leið og ég les.

Það er leiðinlegt að þurfa að skila inn einhverju um það sem maður hefur lesið um.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Prófatími...

Það er alveg merkilegt hvað ég er rólegur yfir prófunun núna, allt að fara að gerast og mér finnst að ég hafi allan tímann í heiminum.

Spurning hvort maður bregði sér ekki í bíó í kvöld ?

Það verður annaðhvort bíó eða skýrslugerð í aðferðarfræði. Báðir kostirnir hljóma vel en ég held að skýrslugerðin verði fyrir valinu.

mánudagur, apríl 03, 2006

Tíminn líður

Það er merkilegt hvað tíminn líður hratt á næturvöktum þegar maður er að gera bókstaflega ekki neitt.

Lærdómurinn hefur samt eitthvað látið á sér standa yfir helgina þrátt fyrir að nægur tími hefur verið fyrir stafni.

Ég læri samt heilann helling. Til dæmis þá tók ég eftir því að það byrjar að birta hérna á Akureyri upp úr fimm ! Merkilegt nokk.
Á internetinu er þetta helst

Var að finna frétt um mig á internetinu fyrir algjöra tilviljun. Mér leiddist pínu á næturvakt og hafði nákvæmlega ekkert að gera, þannig að ég sló inn nafnið mitt á google.com til að forvitnast um afdrep mín á internetinu. Mér til mikillar skemmtunar þá fann ég þessa frétt á heimasíðu Menntaskólans á Akureyri. Ekki skemmdi það fyrir að yfirvaraskeggið fékk að njóta sín á internetinu, því mynd var látin fylgja með fréttinni.


Hér sést Sigmar ásamt Önnu Lúðvíksdóttur á góðri stund í kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Nýr hlekkur

Eftir að hafa verið kosinn bloggari mars mánaðar, fyndnastur og svo ljúfastur á menningarvef Stellu Kristjánsdóttur Beekman, þá hef ég ákveðið að launa frúnni með einu stykki hlekk yfir á síðuna hennar. Hún á það vel skilið, enda sú eina sem heldur úti vef af systrunum fjórum en Stella er sú yngsta í röðinni og jafnframt sú tæknivæddasta.

Njótið vel.


Stella hefur getið gott orð á sér á internetinu í gegnum árin, því er kominn tími á að hún njóti hylli almennings. Myndin er tekin af gaganskrá Lögreglunnar í Reykjavík.
Fyndið

föstudagur, mars 24, 2006

Með allt á heilanum

Það er alveg merkilegt með mig hversu auðvelt ég á með að fá lög á heilann. Ekki nóg með það þá fara lögin ekki úr kollinum á mér fyrr en eftir einn til tvo daga.

Þetta getur verið einstaklega hvimleitt þar sem þetta er farið að ræna mig svefni á kvöldin þegar ég er að fara að sofa.

Ég held að ég þurfi að finna einhver ráð til þess að slökkva á sem mestri heilavirkni áður en ég fer að sofa.

Einhverjar hugmyndir ?

fimmtudagur, mars 23, 2006

Smá pæling

Ætli hommar geti verið karlrembur ?


Elskendurnir Gunnar Þór Heimisson og Brjánn Atlason hafa velt vöngum sínum um þetta málefni í þónokkra tíð.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Ýsa skvísa


Heimkynni ýsu eru í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hún í Norður-Íshafi og Barentshafi og allt suður í Biskajaflóa. Við Grænland er hún sjaldséð en í Norðvestur-Atlantshafi er hún frá Nýfundnalandi til Hatterashöfða í Bandaríkjunum.

Við Ísland er ýsan allt í kringum landið. Mun meira er um hana við sunnan- og vestanvert landið en í kalda sjónum norðanlands og austan. Oft er og mikið um ýsu við Ingólfshöfða, Dyrhólaey og Vestmannaeyjar auk Faxaflóa, í Breiðafirði og við Ísafjarðardjúp. Ýsan er grunnsævis- og botnfiskur sem lifir á 10-200 metra dýpi og stundum dýpra á leir- og sandbotni.

Fæða ýsunnar er margbreytileg. Ýsuseiðin éta einkum ýmis smákrabbadýr eins og ljósátu, rauðátu. Fullorðin ýsa étur ýmis konar fiskmeti, mest loðnu. Hún étur og botndýr eins og krabba og lindýr. Smáfiska eins og sandsíli, smásíld og spærling étur hún einnig, sem og rækju, fiskseiði, síldarhrogn og fleira. Mörg rándýr leggjast á ýsuna. Þar má nefna háf, þorsk, löngu, lúðu og fleiri stóra fiska. Selir og smáhveli láta hana ekki heldur í friði.

Fyrstu æviár sín vex ýsan tiltölulega hratt. Hún getur verið orðin um 20 cm þegar hún er eins árs og á öðru aldursári rúmlega 30 cm. Lengd ýsu eftir aldri er nokkuð mismunandi eftir því hvort hún elur aldur sinn í hlýja sjónum sunnanlands eða þeim kalda norðanlands. Einnig verða ýsur í hlýja sjónum fyrr kynþroska en þær í kalda sjónum. Yfirleitt verður hún kynþroska 3-4 ára gömul. Ýsan getur orðið a.m.k. 15 ára gömul en það er hæsti aldur sem greindur hefur verið á ýsu af Íslandsmiðum.

Bara fyrir þá sem vildu fá að vita þetta.

mánudagur, mars 20, 2006

Stefnan er sett !



Nú veit ég hvað ég geri á næsta ári !

Er þetta ekki málið ?

laugardagur, mars 18, 2006

Ástarþakkir


Mig langar að þakka símanum kærlega fyrir heilsufarinu sem er ríkjandi í dag en þeir voru svo almennilegir í sér að bjóða mér og nokkrum öðrum krökkum í heimsókn til sín í gær.

Þegar leið á kvöldið þá var maður boðaður á Vélsmiðjuna til þess að fylgja tveim yngismeyjum frá Grenivík um dansgólf staðarins og tel ég að það hafi nú gengið bærilega.

Annars hrjáir almennt andleysi mig núna, enda verður maður hálmaltur eftir neyslu áfengra drykkja sem hafa yfirleitt ekki góð áhrif á heilsufar fólks ef neytt er um helgi.

Svona er nú það.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Hlýindi

Í dag var rosalega gott veður og það var gaman. Ég fór ég úlpulaus í skólann og Það var rosa gaman. Í skólanum hitti ég marga krakka og það var líka gaman. Sólin skein inn í skólann og það var gaman en í skólanum var heitt en það var ekki gaman.

Afleiðingar þess að sólin skein inn í skólann voru ekkert rosalega skemmtilegar, þó svo að það hafi litið alveg einstaklega vel út.

Að sitja fyrir framan tölvuskjá og dunda sér á netinu er hálf fúlt þegar maður er allur þvalur út af hita í húsnæði skólans.

Ég hlakka ekki til þegar nær dregur sumri og það tekur að hlýna almennilega. Spurningin er samt sú hvort maður fari þá ekki að mæta léttklæddur í skólann? Ég held að hlýrabolur og stuttbuxur verði "in" í vor hjá háskólanemum á Akureyri.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Smá pæling...

Hvort ætli perrar, beri saman bækur sínar eða brækur sínar ?


Bara svona til hugleiðingar...
Helvítis próf !

Djöfull er pirrandi að vera með alla hluti á hreinu fyrir próf en "fokka" öllu upp þegar að prófinu kemur.

Grundvallaratriði og tímaþrot er eitthvað sem ég er að klikka á.

Nú er bara að bíða eftir því næsta !

mánudagur, mars 13, 2006

Hvar er glófinn minn ?

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá virðist ég alltaf týna vinstri hanskanum af flestum pörum sem ég hef átt í vetur.

Samtals hafa fern hanskapör fyrnast í vetur og þar af eru þrjú sem eru vinstrihanskalaus. Aðeins eitt par hefur horfið alveg sporlaust og gerðist það á fyrsta degi í Noregsfor minni um áramótin.

Ég hef nú brugið á það ráð að sameina hægrihandarhanska í eitt par. Ég sný bara örðum hanskanum upp og treð honum á vinstri hendina. Það virkar ágætlega.


Hefur einhver séð vinstrihandarhanska á vergangi upp á síðkastið ?

Ef einhver spyr um ástæðu misræmis á hönskum hjá mér þá ber ég fyrir mig tísku.

föstudagur, mars 10, 2006

Skipulags Sigmar

Það er sko hægt að segja með sanni að ég get skipulagt mig upp á mínótuna !

Þannig er með mál í vexti að ég átti að skila inn ritgerð í Fjölmiðlafræði um rannsóknarblaðamennsku í tímanum í morgun, sem og ég gerði.

En það þykir kannski ekki frásögum færandi nema það að ég vissi af þessari ritgerð frá því í janúar og var svo sem alltaf á leiðinna að klára ritgerðina á skikkanlegum tíma, sem og ég gerði.

Ritgerðin var búin hvíla yfir mér eins og mara síðastliðnu tvær vikur en ég hafði samt aldrei tíma til þess að leggjast í smíðarnar sökum einhverra óskiljanlegra anna.

En ég byrjaði sumsé að vinna í ritgerðinni í gær, einum degi fyrir skiladag. Ég las og las í allan gærdag, alveg fram að kvöldmat og ég var, satt að segja, orðinn ansi lúinn eftir það.

Eftir kvöldmatinn þá var sumsé ákveðið að taka smá "lærdómspásu" og ákveðið að tylla sér fyrir framan imbann og slappa örlítið af. Það vildi nú samt ekki betur til en að hvert gæðaefnið rak upp, hvert eftir öðru og alltaf var erfiðara og erfiðara að hafa sig upp úr mjúkum og þægilegum leðursófanum.

Það var ekki fyrr en að einni hrísmjólk, ópal pakka og nokkrum klukkustundum liðnum að ég drattaðist á lappir og bretti hressilega upp á ermarnar og leit á klukkuna, vongóður um tímann.

Klukkan var nú ekki nema rétt um ellefu.

Það var því unnið hörðum og hröðum höndum það sem eftir lifði kvölds, nætur og morguns.

Um átta leytið í morgun sat ég uppi með sveittan skallann og eitt stykki tíu blaðsíðna, fullunna og spegilslétta, ritgerð.

Þá var bara eftir að stinga sér í vettlingana, smella húfunni á höfuðið og renna upp úlpunni og hjóla af stað á vit ævintýranna og skila ritgerðinni á hárréttum tíma til brosmilds kennara sem tók við meistaraverkinu með bros á vör.

Og hana nú !

fimmtudagur, mars 09, 2006

Fallegur hópur !

Hér sést betri hluti fyrstaársnema í félagsvísinda lagadeild Háskólans á Akureyri.


Það má með sanni segja að það hafi verið gaman á árshátið FSHA, jafnvel þó svo að minnið hafi orðið eitthvað gloppótt þegar leið á kvöldið.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Undur og stórmerki !

Í dag þá fór ég á fætur klukkan átta, eldaði mér hafragraut og fór síðan að læra.

Það þykir kannski ekki frásögum færandi, nema það að ég átti ekki að mæta í skólann fyrr en klukkan tíu.

Það er mjög langt síðan að svona lagað hefur gerst hjá latasta manni Íslands.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Nóg að gera

Þýðing á fimm blaðsíðum af fræðilegri ensku um kenningar Maxs Webers um náðarvald fyrir morgundaginn, verkefni í íslensku um málsnið fyrir fimmtudaginn og ritgerð um rannsóknarblaðamennsku í fjölmiðlafræði fyrir fimmtudag líka.

Samt sem áður þá sit ég hér og væli um hvað það sé mikið að gera og skrifa um það á netið.

Væri ekki nærri lagi að hætta að gefa sér tíma í þessa vitleysu og gera eitthvað af viti, í staðinn fyrir að horfa á tölvuskjáinn og vona að allt reddist von bráðar.

Já, það er nú það...

mánudagur, mars 06, 2006

Skyggni ágætt

Það er greinilegt að það stefnir í þynnkudag númer tvö, þar sem sunnudagurinn var ekki nægur til þess að vinna á þynnkunni sem brast á í kjölfar ofneyslu Brennivíns og Morgans skipstjóra.

Útlitið er samt bjart fyrir morgundaginn enda þarf lifrin varla meira en tvo daga við úrvinnslu áfengisins sem neytt var um helgina.