mánudagur, október 31, 2005

Hvað gerði ég ekki !

Helgin sem leið var ansi viðburðarík og það tæki aldur og ævi að taka fram það sem ég gerði. Því hef ég ákveðið að benda á nokkra punkta sem ég gerði ekki um helgina, til þess að setja mynd á helgina. Þið, lesendur góðir, getið fyllt upp í eyðurnar.

Það sem ég gerði ekki var m.a.

* Vaknaði snemma á laugardaginn
* Fór snemma að sofa á föstudaginn
* Fór út að hlaupa
* Lærði eins og hestur
* Sat heima á laugardagskvöldi
* Neyta áfengra drykkja á föstudagskvöldi
* Neyta áfengra drykkja á laugardagskvöldi
* Leiðast
* Vera á Internetinu

Þetta er það helsta sem ég gerði ekki um helgina. Það verður samt að vera leyndarmál hvað það var síðan sem ég gerði, því það er hætt við að lesendum standi ekki á sama ef ég upplýsi það...

Og hana nú !

föstudagur, október 28, 2005

Hvar er síminn minn ?

Mig langar að benda á að lettneskur Nokia 1100 er á vergangi einhversstaðar hér norðanlands, annaðhvort í Háskólanum á Akureyri eða í Brautarhóli. Þeir sem sjá símann eru vinsamlegast beðnir um að hafa varann á, því hann bítur, fast !

Allavegana þá er ég GSM símalaus í augnablikinu.

Æstir aðdáðendur eru beðnir um að hringja í Brautarhól, Háskólann á Akureyri eða senda einfaldlega hugskeyti, ef þið þurfið endilega að ná í mig.

fimmtudagur, október 27, 2005

Próf !

Núna í morgun var ég í aðferðarfræðiprófi og það var prófað í SPSS tölfræðiforritinu. Ég hef ekki hugmynd hvernig mér gekk, en gróflega áætlað má hugsa að ég fái einkunn á bilinu 0 - 10.

Nú er bara að krossleggja fingur og biðja til SPSS !

Hallelúja og amen (analyze, descprivtive statistics, explore)

miðvikudagur, október 26, 2005

Afhverju ???

Já, afhverju er svo miklu auðveldara að skoða internetið heldur en að læra undir aðferðarfræðipróf ?

Getur einhver svarað því ?

þriðjudagur, október 25, 2005

Heilsuráð

Að borða hvítlauk er mjög hollt. Ef þú, lesandi góður, ert að verða eitthvað slappur, þá mæli ég eindregið með því að þú borðir einn hvítlauks klasa (eða bát, bút, eða hvað sem það nú kallast) svo þú verðir ekki veikur / veik. Hvítlaukur er nefninlega mjög gott varnameðal gegn allskyns kvillum !

Ég er eitthvað hálf slappur í dag, þannig að ég ætla að hjóla beint heim til ömmu og fá mér smá hvítlauk, nammi namm.

Láttu ekki þitt eftir liggja, fáðu þér hvítlauk strax í dag !

Ekki má svo gleyma að hvítlaukur ver mann svo ágætlega gagnvart blóðsugubitum. Ekki amalegt það Elli.

mánudagur, október 24, 2005

Suðurferð

Ég fór suður um helgina, sem var svo sem fínt, nema hvað að það var eitt sem setti svartan blett á þessa ferð.

Ég hitt einhvern algjöran hálfvita, sem vissi ekki neitt ! Hann var að rugla eitthvað um landsbyggðina og sagði að "mér finnst ekki sanngjarnt að við hérna fyrir sunnan séum að halda upp einhverjum litlum bæjarfélögum"

Í fyrstu þá gapti ég, en það var ekki fyrr en hann sagði líka að "Ég er samt algjör sjálfstæðismaður, en það skiptir mig líka miklu máli að allir hafi jafnan rétt" Að ég sá að þetta var bara fífl.

En hverju er svo sem að búast af manni sem hefur ekki einu sinni komið til Akureyrar, því hann lét mig vita að það lengsta norður sem hann hafði farið var upp í Hrútafjörð.

Í stuttu máli, þá hlustaði ég á þennan asna í smá stund, rökræddi aðeins við hann og sagðist svo ekki nenna að tala við hann.

Það er samt ótrúlegt að það sé til svona fólk á Íslandi. Ja hérna hér !

fimmtudagur, október 20, 2005

Loksins !

Mikið var að það byrjaði að snjóa aftur ! Nú getur maður heldur betur farið að spæna um bæinn á nýju nagladekkjunum sínum !

Þannig að ef þið, lesendur góðir, sjáið einhvern ofur svalann gaur á Bronco (Fjallahjóli) þeysast um skransandi og stökkvandi um götur Akureyrarbæjar , þá er það Ég !

miðvikudagur, október 19, 2005

Þunglyndur, en samt svalur !

Ég verð nú að segja að ég er nú nokkuð þunglyndur yfir því að Eva mín góða og sæta, sé farin í heimsreisu og verði í burtu í sjö mánuði, en svona er víst lífið. Ég var held ég engu skárri líka þegar ég fór í burtu í sex mánuði... Við skötuhjúin erum ferleg.

En til að bæta úr þessu þunglyndiskasti mínu, ákvað ég að verða rosalega svalur !

En hvernig er best að bæta við svaleikann sinn ? jú auðvitað með því að hressa upp á farartækið sitt !

Bronco Fjallahjólið mitt, hefur sumsé tekið stakkaskiptum ! Ekki nóg með það að vera með bleika slaufu á stýrinu, en þá er Bronco kominn með sport bretti sem lífga heldur betur upp á útlitið ! Og síðast en ekki síst, þá er ég kominn á nagladekk, sem mér finnst vera einstaklega svalt og flott.

Ég verð nú að segja að ég glotti nú út í annað þegar ég brunaði fram úr grunnskólakrökkunum á leið í skólann í morgun og heyrði hvernig naglarnir tættu upp malbikið...

Nú er bara að fá sér sólgleraugu, setja upp grifflunar, fara í "leddarann" og bruna niður í bæ um helgina og skrensa á rúntinum !

mánudagur, október 17, 2005

Ertu þá farin ?

Ertu þá farin frá mér ?

Já það er víst komið að því, Eva Lækur er á leiðinni til útlanda. Hún verður frá í svona sjö mánuði sem þýðir að ég eigi eftir að vera órólegur, stressaður og eitthvað þriðja atriði sem ég nefni ekki hér, í sjö mánuði...

Ég vona bara að hún skemmti sér frábærlega, annars verður öll þessi kvöl og pína til einskins !

Far vel !

föstudagur, október 14, 2005

Þrældómur ?

Aldrei þessu vant hef ég tekið föstudagseftirmiðdegið frá í það að læra. Það er svo sem ekki frásögum færandi, nema að á mínum yngri árum þá notaði ég ævinlega þann tíma í undirbúning á föstudagsskralli eða einhverju þvíumlíku. En í dag er ég búinn að lesa undir Upplýsingarýni 4. kafla í bók Jóels Bests, amerísks tölfræðis gúrús.

Fyrir þá sem hafa áhuga geta leitað uppi bókinni "Damned lies and statistics" og fylgst með framvindu mála !

En í tilefni dagsins, þá langðaði mig að benda ykkur á síðuna hans Emils nokkurns Strengs, sem kemur frá Bodensee í Þýskalandi. Hana má finna hér.

Mig langaði einna helst að benda Jóni frænda mínum á þessa síðu.

þriðjudagur, október 11, 2005

Sáttur, enn sem komið er...

Ég var að fá út úr tveim prófum í aðferðarfræði sem ég var í um daginn og ég verð nú bara að segja að ég er nokkuð sáttur, sérstaklega í ljósi þess að ég hélt að ég hefði drullað alveg upp á bak í öðru prófinu.

Aðferðarfræði, tölfræðiútreikningur : 5,7

Aðferðarfræði, tölvuvinnlsu próf : 8,0

Nokkuð gott verð ég nú bara að segja.

Svo er maður búinn að standa sig nokkuð vel í nokkrum verkefnum en þau skiptast svona :

Upplýsingarýni:
5,5
7,5


(n.b. hópaverkefni bæði)

Enska:
8
9


Afbygging 20. aldar
6,5

(n.b. hópaverkefni, sem má sjá hér)

Svo bíð ég spenntur eftir niðurstöðum úr Vinnulagsprófi og bíð ennþá spenntari eftir að fara í Afbyggingar próf !

mánudagur, október 10, 2005

Talið að 2,5 milljónir manna séu heimilislausar eftir jarðskjálftann

Svona hljóðar ein fyrirsögnin sem er á mbl.is í dag, í þessari frétt er verið að fjalla um hörmungar jarðskjálftans sem reið yfir í Pakistan, Indland og Afganistan á laugardaginn. Í fréttinni segir að talið er að 38 þúsund manns hafi látist í þessum hörmumgum ! 38 þúsund manns ! 42 þúsund eru slasaðir og tugi þúsinda viðhefst undir berum himni !

Þetta eru alveg hræðilegar náttúruhörmungar, það fer ekki á milli mála.

En samt virðist manni sem svo að þessar hörmungar séu ekki eins merkilegar og þær sem dundu yfir svæðin við Mexíkóflóa nú fyrir skömmu.

Mig minnir að allir fréttamiðlar hafi verið stútfullir af fréttaflutningi frá hamfarasvæðunum í New Orleans í Bandaríkjunum, eins og þetta væri að gerast í fyrsta skipti í heiminum að náttúran hegðaði sér ekki alveg eins og við vildum.

Ég er samt ekkert að draga úr hamförunum sem voru þarna vestra, en langar samt bara að benda á að hamfarirnar eystra, eru sennilega meiri (ef við metum mannslíf meira en peninga) en þær sem voru vestanhafs. En samt virðast þessar nýskeðnu hamfarir vera allt í lagi, ekkert svo merkilegar, bara daglegt brauð.

Það er alveg ótrúlegt að sjá þennan mun. Svo lengi sem við höfum engra hagsmuna að gæta (viðskipti) þá skipta hamfarir einhversstaðar annarstaðar engu máli, eða allavegana minna máli.

En við ættum kannski að pæla aðeins í þessu og spyrja okkur hvort aurinn skiptir meira máli en sálin ?

Ég bíð svo spenntur eftir fregnum þess efnis að íslensk stjórnvöld gefi aur í hjálparstarfsemi þarna eystra, rétt eins og þau gerðu þegar voldugasta þjóð í heimi varð fyrir smá áfalli. Því ég held að við vitum öll hvar peningnum sé betur varið.

fimmtudagur, október 06, 2005

Takk fyrir mig !

Mig langar að nota tækifærið hér á þessum vefmiðli og þakka heremy.com kærlega fyrir gott samstarf í gegnum tíðina, en nú eru þeir hættir rekstri.

Fyrir þá sem ekki vita þá var heremy.com frítt net-myndaalbúm.

Nú þarf maður að fara að leita sér að öðru slíku. Á meðan verður síðan örlítið hrá, en dyggir lesendur láta það varla á sig fá.

En leitin hefst ekki alveg strax, því ég á eftir að ganga frá samningum við Íslenska Útvarpsfélagið um sýningarrétt á þáttaröðina um leitina að hinu rétta net-myndaalbúmi.

Svo er ég líka að fara í próf og fullt af verkefnum eru framundan, þannig að það er sennilega best að fara heim og leggja sig aðeins fyrir komandi átök.

miðvikudagur, október 05, 2005

Góð þjónusta !

Eftir áralanga dvöl í hinum ýmsum skólum landsins þá stendur mér loksins til boða að nýta mér þjónustu gangbrautarvarða. Þannig að nú, þegar ég er að fara í skólann, galvaskur, þá þarf mamma ekkert að hafa áhyggjur af mér í umferðinni á morgnana.

Þetta setur óneitanlega skemmtilegan svip á skólferðirnar á morgnana, því hvorki fleiri né færri en tveir hressir gangbrautarverðir bjóða mér góðan daginn með bros á vör sem leiðir af því að ég fer hjólandi sæll og glaður upp í skóla, dagurinn gæti bara ekki byrjað betur !

Mikið er ég feginn að borga útsvarið mitt til Akureyrarveldissins, þó lítið sé í augnablikinu.

mánudagur, október 03, 2005

Dominos veldið á barmi gjaldþrots ?

Í gær keypti ég mér pitsu hjá Dominos og fyrir valinu varð 12" Dominos pepperoni á 1610 krónur. Ég borgaði með 5010 krónum og fékk 4600 tilbaka. Sem skítseyði þá þagði ég um þessi mistök afgreiðslumannsins.

En auðvitað kemur svona lagað alltaf manni um koll, því ég er búinn að týna veskinu mínu, sem inniheldur 4000 íslenskar krónur og 500 norskar.

Það borgar sig sum sé að vera heiðarlegur !

fimmtudagur, september 29, 2005

Brautarhóll online ?

Baráttan er hafin !

Sigmar Bóndi vs. IBM laptop

Ekki missa af stærsta bardaga ársins þegar Sigmar glímir við fartölvuna sína um netsamband ! Sigmar vill ólmur koma Brautarhóli online en IBM gerir allt sem í hans valdi stendur svo það gerist ekki. Æsispennandi keppni um blóð, svita og wireless connection.

(ath. þessi færsla er rituð í tölvuveri Háskólans á Akureyri)

mánudagur, september 26, 2005

Ég er klukkaður !

Ja hérna hér, þá er bara búið að klukka mann á internetinu, sem þýðir í stuttu máli að ég á að segja einhver 5 persónuleg atriði um sjálfan mig, svo alþjóð fái að vita. Það er svo sem hið minnsta mál, það er bara spurning hvort lesendur hafi maga í það. En mig langar að þakka Finni Torfa sérstaklega fyrir að koma þessari kvöð yfir á mig.

1. Ég heiti Sigmar Arnarsson og er meyja, ég var aldrei hrifin af því í æsku og öfundaði frændur mína tvo mjög af því að vera ljón.

2. Ég er nautnaseggur og fer ákaflega mjúkum höndum um sjálfan mig, til dæmis má nefna að ég er einstaklega góður í rökfærslu við sjálfan mig á morgnana þegar ég heyri að úti hvíni napur vindur... þá heillar rúmið meira.

3. Í beinu sambandi við nautnaseggs yfirlýsinguna þá er skemmst frá því að segja að ég er alveg rosalega latur oft á tíðum.

4. Ég hef komið til afríku, nánar tiltekið Marakkó, og borðað þar dýrindis kjúkling, þrátt fyrir að u.m.þ.b. milljón viðvörunarbjöllur hafi hringt í hausnum á mér varðandi hreinlæti staðarins og ástands kjúklingsins... En ég var svangur.

5. Ég hef aldrei lýst því yfir að hætta að drekka, þrátt fyrir margann og misslæman þynnkudaginn, það er betra að lýsa ekki neinu yfir sem maður veit að kemur aldrei til með að standa.

Jæja, þar hafið þið það, vonandi vitið þið meira um mig sjálfan í dag en í gær. En svona til gamans þá langar mig að "klukka" Garðar Val, Ingólf Friðriksson, Jón Heiðar og Björn Bjarnason. Og hana nú !

föstudagur, september 23, 2005

Ást

Halldór Örvar Einarsson (a.k.a "Dóri Stóri"), Ég elska þig !

fimmtudagur, september 15, 2005

Person ?

Í gær reiknaði ég einhverja ægilega stærðfræðiformúlu sem sýndi fylgni á R-inu hans Persons.

EFtir útreinkingu á staðalfráviki, fylgni og ég-veit-ekki-hvað, þá tókst mér að komast að niðurstöðu

Svarið var 0,94 !

Ég er ekki alveg viss hvernig mér tókst að fá rétta niðurstöðu, en mér leið eins og ég hefði verið á rosalegu fyllerí einhversstaðar niðrí bæ en vaknaði svo skyndilega heima, án þess að vita hvernig í fjandanum mér tóks að skríða heim.

Nú er bara að vona að í næsta prófi að ég vakni ekki einvherstaðar hjá einhverrri ægilegri herfu, handan við Gleránna án þess að hafa hugmynd um hvernig ég komst þangað.

mánudagur, september 12, 2005

Samsæri

Föstudaginn 9 september flaug ég til Reykjavíkur. Ég fékk sætisnúmer 5B

Sunndaginn 11 september flaug ég til Akureyrar. Ég fékk sætnisnúmer 5B

Er þetta samsæri gegn mér eða bara tilviljun ?